Spjallað um gamlar ljósmyndir

Þorsteinn Tryggvi Másson, héraðsskjalavörður, mun ræða við gesti Listasafns Árnesinga í dag kl. 15 um gamlar myndir frá Hveragerði og Ölfusi sem hanga uppi í safninu.

Tvær ljósmyndasýningar eru nú í Listasafni Árnesinga í Hveragerði. Önnur þeirra nefnist Úr kössum og koffortum og er samstarfsverkefni með Héraðsskjalasafni Árnesinga á Selfossi. Þar getur að líta myndir úr ýmsum skjala- og myndasöfnum sem Héraðsskjalasafninu hafa borist gegnum tíðina.

Myndirnar, sem spanna 50 ára tímabil frá 1930 til 1980, eiga það sammerkt að vera teknar í Hveragerði og nágrenni; á Kolviðarhóli og í Hveradölum, Þorlákshöfn og Ölfusi. Einnig er þar til sýnis gömul kvikmyndabrot sem tekin voru af Fjölskyldunni í Fagrahvami, bæði heima við og á ferðum erlendis.

Þorsteinn Tryggvi mun ræða við gesti um ljósmyndirnar, ljósmyndarana og söfnun skjalasafnsins á gömlum ljósmyndum úr sýslunni.

IS(not) eða (EI) land er heiti hinnar sýningarinnar, en þar má sjá afrakstur úr ferðalögum fimm pólskra ljósmyndara og fimm íslenskra rithöfunda sem ferðuðust í pörum um Ísland á síðasta ári.

Listasafn Árnesinga, er opið fimmtudaga til sunnudaga kl. 12 – 18. Þar er notaleg kaffistofa, barnakró með kubbum og bókakró þar ýmis rit um myndlist liggja frammi.

Allir velkomnir og aðgangur ókeypis.