Spennandi dagskrá á Sumartónleikum í Skálholti

Skálholt.

Þrátt fyrir mikla óvissutíma vegna kórónuveirufaraldursins ákváðu skipuleggjendur Sumartónleika í Skálholti að halda sínu striki og festa ekki þessari tónlistarhátíð.

Hátíðin hefst í Skálholti á morgun, 2. júlí og stendur til 12. júlí. Einhverjar breytingar voru þó gerðar á fyrirkomulagi tónleikanna og að sjálfsögðu er farið eftir gildandi reglum vegna sóttvarna.

Á opnunartónleikum Sumartónleika í Skálholti 2020 verða flutt ný og eldri verk eftir staðartónskáldin, Þórönnu Björnsdóttur og Gunnar Karel Másson. Heiða Árnadóttir söngkona og Tinna Þorsteinsdóttir píanóleikari munu flytja verk sérstaklega samin fyrir þær. Þær hafa báðar verið virkar í að frumflytja ný verk og vinna náið með tónskáldum.

Heiða mun flytja verkið Þá birtist sjálfið sem var frumflutt á Myrkum músíkdögum fyrr á þessu ári. Verkið er byggt á texta Søren Kierkegaard. Tinna mun flytja verkið Plink plink eftir Gunnar sem er stutt stúdía á möguleikum dótapíanósins. Hún mun einnig flytja nýtt verk fyrir dótapíanó, rafrás og rödd ásamt Heiðu.

Staðartónskáldin munu dvelja í Skálholti á meðan Sumartónleikar fara fram og vinna náið með tríóinu KIMI. Ný verk sem þau hafa samið fyrir KIMA verða frumflutt á lokatónleikum Sumartónleika 12. júlí.

Ekki er aðgangseyrir að tónleikunum en tekið er við frjálsum framlögum ef fólk hefur tök á.

Dagskrá Sumartónleika í Skálholti:

Fimmtudagur 2. júlí
20:00 – Opnunartónleikar: Heiða, Tinna, Þóranna og Gunnar Karel

Föstudagur 3. júlí
20:00 – Cantoque Ensemble og Steinar Logi Helgason: Aldasöngur og íslenskar gersemar 

Laugardagur 4. júlí
13:15 – Tónleikaspjall: Cantoque Ensemble
14:00 – Cantoque Ensemble og Steinar Logi Helgason: Áður í páfadóm – Trúarleg íslensk kórtónlist

Sunnudagur 5. júlí
11:00 – Messa: tónlistarflutningur með brotum úr dagskrám Cauda Collective og KIMI tríó
14:00 – Fjölskyldutónleikar með Guðbjörgu Hilmarsdóttur og Kára Þormari
16:00 – Guðbjörg Hilmarsdóttir og Kári Þormar: Barokk í Skálholti

Fimmtudagur 9. júlí
20:15 – Tónleikaspjall: Cauda Collective og Sigurður Halldórsson ræða um Þorlákstíðir
21:00 – Cauda Collective: Þorlákstíðir

Föstudagur 10. júlí
20:00 – KIMI: Afkimar

Laugardagur 11. júlí
14:00 – Minningardagskrá um Jaap Schröder og Helgu Ingólfsdóttur: Allar leiðir liggja frá Rómarborg
16:00 – Aulos Ensemble: Landið okkar 

Sunnudagur 12. júlí
11:00 – Messa: Allar leiðir liggja frá Rómarborg
14:00 – Fjölskyldutónleikar: Bachelsi
16:15 – Tónskáldaspjall: Staðartónskáld Sumartónleika 2020
17:00 – Lokatónleikar: KIMI tríó frumflytur verk staðartónskáldanna

Fyrri greinStórsigur hjá KFR – Hamar og ÍBU töpuðu
Næsta greinBíóhúsið fær veglega andlitslyftingu