Spenna og hasar í fimmta lagi Moskvít

Hljómsveitin Moskvít. Ljósmynd/Aðsend

Sunnlenska hljómsveitin Moskvít sendir frá sér sitt fimmta lag í dag og nefnist það He’s Coming My Way.

Lagið er fimmta lagið á plötunni Human Error og nú styttist í að hún verði komin út í heild sinni því hljómsveitin stefnir að því að gefa ú næstu lög með viku fresti en lögin af plötunni má finna bæði á Spotify og Youtube ásamt tónlistarmyndböndum.

Fyrri lögum hljómsveitarinnar hefur verið vel tekið og meðal annars hafa þau verið í spilun á Rás 2. Eins og fyrri lög ber He’s Coming My Way keim af vestrænum blús, er vel rokkað og undirspilið dansar stórfenglega í takt við textann.

„Á yfirborðinu fjallar textinn um mannaveiðar en ef við skyggnumst dýpra er hann í raun um mann sem reynir að flýja sjálfan sig, þar sem hann er eltur af eigin djöflum. Undirspilið samsvarar textanum á kostulegan hátt, sem hálfgerður eltingaleikur, þar sem hraðinn magnast er líður á lagið. Myndast því ákveðinn spenna og hasar,“ segja þeir Moskvítliðar í tilkynningu. Í laginu leikur Jóhanna Rut létt á fiðlu og gítarleikarinn Valli lætur rödd sína óma á móti söngvaranum Sjonna.

Til þess að fagna útgáfu lagsins mun Moskvít halda tónleika í kvöld á Íslenska rokkbarnum í Hafnarfirði.

Fyrri greinÍbúar í Lyngheiði bíða spenntir eftir götusóparanum
Næsta greinHeppnasti Íslendingurinn er Sunnlendingur