„Óli Gränz“ er heiti endurminninga Carls Ólafs Gränz, iðnmeistara og gleðigjafa, frá Vestmannaeyjum. Hann fæddist í Eyjum 16. janúar 1941 og hefur lagt gjörva hönd á margt á lífsleiðinni. Var ungur til sjós og síðar farsæll iðnaðarmaður, rak bílaleigu og verslun, settist á Alþingi og allsherjarþing Sameinuðu þjóðanna, var bókaútgefandi á heimsvísu og mikilvirkur í félagsmálum. Óli segir frá æsku sinni og uppvexti en þá dvaldi hann m.a. hjá afa sínum, Carli Jóhanni Gränz, á Selfossi. Einnig segir hann frá þátttöku í atvinnulífi og pólitík, einkamálum, prakkarastrikum og eldgosunum í Surtsey og Heimaey. Bókin er 315 bls. og prýdd fjölda mynda. Guðni Einarsson skráði. Útgefandi er Bókaútgáfan Hólar.

Afi af sænskum ættum
Carl Jóhann Gränz, eða Kalli afi, var sonur Olav Gränz klæðskera af sænskum ættum og þaðan kemur ættarnafnið okkar. Olav kom til Íslands til að kenna klæðskurð og fatasaum, einkum að sauma jakkaföt með vesti. Langafi hvarf af yfirborði jarðar og hefur ekkert til hans spurst síðan. Hann eignaðist Kalla afa með stúlku á saumastofunni þar sem hann kenndi í Reykjavík. Hún hét Anna Sigríður Guðmundsdóttir og var frá Stóra-Kambi í Breiðuvík á Snæfellsnesi…
Auk þess að eignast pabba og Guðrúnu með ömmu Þóru eignaðist Kalli afi Sigríði Jakobínu Gränz með Sigurlínu Sigurðardóttur frá Rauðafelli undir Eyjafjöllum. Kalli afi giftist síðari konu sinni, Guðrúnu Sigríði Ólafsdóttur, árið 1924. Hún var systir Óskars Ólafssonar, pípulagningameistara í Vestmannaeyjum. Carl Jóhann og Guðrún eignuðust þrjá syni. Elstur var Áki Guðni Gränz (1925-2014), málarameistari og listamaður, sem gerði meðal annars styttuna af Ása í Bæ, Ástgeiri Kristni Ólafssyni, sjómanni og rithöfundi, sem er við hafnarkantinn á Vigtartorgi í Vestmannaeyjum. Næstur kom Herbert Barkley Gränz (1930-2011), málarameistari, og yngstur var Gunnar Carl Gränz (1932-2022), málarameistari og myndlistarmaður.

Hnyttin tilsvör Kalla afa
Carl Jóhann, afi minn, var einstaklega fjölhæfur og laginn handverksmaður. Hann var málarameistari en byggði líka hús, vann við múrverk og bólstraði húsgögn. Einnig var hann liðtækur listmálari og teiknari. Eftir hann liggur fjöldi listmuna og málverka. Ég kynntist Kalla afa allvel og var ég nokkrum sinnum sumarlangt hjá honum og Gunnu konu hans á Selfossi. Hann var einstaklega skemmtilegur og hafa mörg tilsvör hans og uppátæki lifað með afkomendum hans og vinum. Hér koma nokkrar sögur:
Afi var í heimsókn hjá mér í Eyjum og við fórum á ball í Höllinni, Samkomuhúsi Vestmannaeyja. Þjónar á ballinu voru hjónin Óli Þórarinsson frá Hoffelli og kona hans, Gyða Steingrímsdóttir. Óli kom að borði okkar og kynnti sig fyrir afa, benti á Gyðu og sagði: „Þetta er konan mín.“ Afi svaraði um hæl: „Þakka þér fyrir að benda mér á að þetta er konan þín. Ég var nefnilega farinn að gefa henni auga!“
Iðnaðarmenn í Eyjum fóru í hestaferð um Suðurland og afi var með. Hreppstjóri í Landeyjunum bauð þeim í kaffi. Þegar þeir komu inn í bæinn sagði hreppstjórafrúin svo allir heyrðu: „Kalli, þú ert ekki í reiðbuxum!“ Afi svaraði að bragði: „Jú, jú. Allar mínar buxur eru reiðbuxur!“
Afi fór einu sinni með hafnsögubátnum út í skip sem lá á ytri höfninni í Eyjum. Hann ætlaði að ná sér í vín. Þegar hann var á leið niður kaðalstigann úr skipinu skrikaði honum fótur svo að hann féll á bólakaf á milli hafnsögubátsins og skipsins: Þegar honum skaut úr kafi með smyglvarning í buxnastrengnum spurði tollarinn. „Hvað varstu eiginlega að gera, Kalli?“ Afi svaraði: „Ég skrapp bara niður í kjallara að sækja hressingu!“ Þeim fannst svarið svo gott að hann slapp með fenginn.
Afi notaði skó númer 49 og bomsur númer 50. Einhverju sinni var hann í samkvæmi og fannst sér naumt skammtað. Þá sagði hann: „Þetta er skrítin veisla, sá fær minnsta snafsinn sem notar stærstu skóna.“
Æskuvinur minn Gulli Bergmann
Við Guðlaugur Bergmann (1938—2004), framkvæmdastjóri Karnabæjar, vorum æskuvinir frá Selfossi. Við kynntumst og urðum góðir félagar þegar ég dvaldi þar hjá Kalla afa í nokkur sumur. Daníel Magnús Bergmann Ásgeirsson, pabbi Gulla, var með bakaríið á Selfossi og góður vinur Kalla afa. Daníel byggði sumarbústað í Þrastaskógi og við Gulli fengum að fara með í vinnuferðir þangað. Vinátta okkar Gulla hélst þangað til hann lést.
Gulli var mjög skemmtilegur strákur og afskaplega uppátektasamur. Hann var bindindismaður meiri hluta ævinnar, mikill kvennaljómi og flottur dansari og sýndi dans á skemmtunum á tímabili. Gulli varð ungur umboðsmaður vinsælla hljómsveita. Svo stofnaði hann tískuverslunina Karnabæ með Birni Péturssyni og Jóni Baldurssyni. Karnabær varð stórveldi á landsvísu. Ég var nokkurn veginn sjálfráða með þau verkefni sem ég vann fyrir Karnabæ í um tuttugu ár.
Eftir gos (Heimaeyjargosið 1973) hringdi ég í Gulla og sagði honum að nú væri besta verslunarplássið í bænum laust. Það var þar sem Hressingarskálinn hafði verið við Vestmannabraut. Ég spurði hvort hann gæti ekki skroppið með flugi til að kíkja á plássið? Gulli var mikill töffari og sagði: „Sagðir þú ekki að þetta væri besta plássið? Taktu það bara á leigu! Ég þarf ekkert að koma.“ Það var gengið frá leigunni og opnað útibú frá Karnabæ, sem hét Eyjabær, í gamla Hressó. Eyjabær var starfræktur í mörg ár.
Eftir að ég missti Jómsborg í gosinu ætlaði ég að kaupa hús Dalla vörubílstjóra, Daníels Guðmundssonar, við Höfðaveg 25. Ég hitti Gulla þegar ég var að fara til Eyja í þessum erindagjörðum og hann rétti mér þykkt umslag sem innihélt eina milljón króna í reiðufé. Hann sagði að ég skyldi hafa þetta sem útborgun. Skátarnir buðu betur en ég og fengu
húsið. Ég kom til Gulla á mánudeginum og skilaði milljóninni. Hann ætlaði ekki að fást til að taka við henni. Þetta var svolítill peningur því skömmu síðar keyptum við Kirkjuveg 88 á 2,8 milljónir.
Gulli missti heilsuna og lést á heimili sínu, Sólbrekku á á Snæfellsnesi, 27. desember 2004. Þar var hann með ferðaþjónustu, hótel og veitingahús með lífrænum mat. Við Iðunn mín heimsóttum Gulla og Guðrúnu Bergmann, konu hans, þangað tvisvar sinnum.

