Söngur, kakó og kósýheit

Aðventuhátíð Flóahrepps verður haldin hátíðleg nk. fimmtudag. Ljósmynd/Sigrún Hrefna Arnardóttir

Fimmtudaginn 4. desember verður aðventuhátíð haldin í þriðja sinn í Flóahreppi. Hátíðin er á vegum menningarnefndar sveitarfélagsins, í samstarfi við Berglindi Björk Guðnadóttur, sópransöngkonu.

„Við höfum síðastliðin tvö ár verið með hátíðina í Þingborg en húsið þar er lokað núna á meðan unnið er að endurbótum og þess vegna erum við með hátíðina í Félagslundi í ár,“ segir Berglind í samtali við sunnlenska.is

„Við höfum fengið styrk frá Uppbyggingarsjóði Suðurlands síðastliðin tvö ár, sem hefur hjálpað okkur mikið við að halda þessu áfram og gera hátíðina veglegri. Við höfum verið að bæta í skreytingar hvert ár. Fyrsta árið vorum við með kakóbarinn sem við stækkuðum í fyrra og í ár erum við búin að smíða risastóran stól í sama stíl en þar verður jólasveinn, tilbúinn fyrir myndatöku með þeim börnum sem vilja.“

Berglind Björk Guðnadóttir. Ljósmynd/Jóhanna Petersen

Fjölbreytt tónlistardagskrá
Berglind segir að dagskrá hátíðarinnar sé með sama sniði í ár eins og undanfarin ár. „Við bjóðum alltaf börnum í leikskólanum, Flóaskóla og krökkum sem að æfa á hljóðfæri hjá Tónlistarskóla Árnesinga að vera með ásamt kirkjukórum sveitarinnar og það hafa alltaf allir viljað taka þátt, sem er mjög gaman því hátíðin er einmitt fyrir alla aldurshópa. Við viljum hafa þetta fjölbreytt og skemmtilegt.“

„Við erum svo alltaf með aðkeypt tónlistarfólk, sem hefur helst einhverja tengingu í sveitina og í ár er það hljómsveitin Dirrindí sem ætlar að ljúka kvöldinu með rokkaðri jólastemningu. Dirrindí er gömul rokksveit úr Hraungerðishreppnum en þau voru einmitt með 30 ára afmælistónleika á Sviðinu á Selfossi um daginn við mikinn fögnuð. Hátíðin er eins og áður segir fyrir allan aldur og allir hjartanlega velkomnir sem vilja kíkja í Flóann og eiga góða kvöldstund með fallegum söng, kakói og kósýheitum.“

Tónlistaratriðin verða fjölbreytt að vanda. Ljósmynd/Sigrún Hrefna Arnardóttir

Kakó með tvisti
„Ef fólk vill fara alla leið þá mælum við með jólapeysunni og jólahúfunni.
Við gerum mikið úr kakóbarnum og bjóðum upp á kakó með tvisti ásamt góðgæti sem er innifalið í miðaverðinu, sem við höfum reynt að halda í lágmarki síðastliðin þrjú ár svo flestir geti komið með alla fjölskylduna með sér. Tíunda bekkingar í Flóaskóla munu afgreiða á barnum í fjáröflunarskyni ásamt Kvenfélagi Villingaholtshrepps og Halldór Bjarnason verður kynnir kvöldsins,“ segir Berglind ennfremur.

Húsið opnar klukkan 18:00 og tónleikarnir hefjast kl. 18:30 en miðasala er í fullum gangi á floahreppur.is.

Viðburðurinn á Facebook

Nánari dagskrá og upplýsingar má finna á floahreppur.is og Instagram.

Fyrri greinSpennuleikur í Vallaskóla
Næsta greinVel heppnuð uppskeruhátíð yngri flokka