Söngtónleikar Kristrúnar á Stokkalæk

Sópransöngkonan Kristrún Hákonardóttir og Guðríður St. Sigurðardóttir píanóleikari halda tónleika í Selinu á Stokkalæk á sunnudaginn kl. 20.

Kristrún er fædd og uppalin á Hvolsvelli og eru tónleikarnir haldnir í tilefni af burtfararprófi hennar í söng frá Söngskóla Sigurðar Demetz nú í vor.

Kristrún hóf tónlistarnám við Tónlistarskóla Rangæinga átta ára gömul. Kennari hennar fyrstu árin í Söngskóla Sigurðar Demetz var Friðrik S. Kristinsson en síðustu þrjú ár hefur hún verið undir handleiðslu Auðar Gunnarsdóttur sópransöngkonu.

Hún hefur verið virkur þátttakandi í óperudeild skólans þar sem hún hefur m.a. farið með hlutverk Pamínu í Töfraflautunni og greifynjunnar í Brúðkaupi Fígarós eftir Mozart.

Kristrún stefnir á áframhaldandi söngnám og mun þreyta inntökupróf í tónlistarháskólum í Þýskalandi og Austurríki nú í sumar.

Fyrri greinCraig Dean: Hlakka til að koma aftur á Selfoss
Næsta greinÞurrkuðu kannabis í sumarbústað