Söngleikjatónleikar í Selfosskirkju

Barna- og unglingakór Selfosskirkju heldur tónleika í kirkjunni í dag kl. 15, ásamt strengjasveit Tónlistarskóla Árnesinga.

Um er að ræða söngleikjatónleika, þar sem fluttar verða vinsælustu perlur úr söngleikjunum Mary Poppins, West Side Story, Fiðlarinn á þakinu og Sound of Music.

„Eftir spennandi undirbúning, fjölda æfinga, samæfingar og æfingabúðir er bara eitt eftir, að flytja fyrir framan fullt hús,“ segir Edit Molnar, stjórnandi barna- og unglingakórsins.

Hún segir það ánægjulegt fyrir kórana að geta komið fram með þessum hætti ásamt strengjasveit, sem er skipuð meðlimum á sama aldri og kórfélagar.

„Á sviðinu verða í kringum níutíu ungir söngvarar og hljóðfæraleikarar og við lofum frábærri skemmtun,“ segir hún.

Miklós Dalmay verður við píanóið og Guðmundur Kristinsson stjórnar strengjasveitinni.