Sönghátíð og tónlistarsmiðja fyrir börn á Klaustri

Kammertónleikar á Kirkjubæjarklaustri voru haldnir í fádæma blíðviðri um síðustu helgi.

Það ríkti sannkölluð baðstofustemmning á föstudagskvöldinu, þegar fjölskylduhljómsveitin Spilmenn Ríkínís leiddi áheyrendur langt aftur í aldir á tónleikum sem báru heitið Kvöldvaka. Heyra mátti sönglög úr fornum handritum eins og Melódíu og Grallara Guðbrands, en hljómsveitin söng og lék á ýmis sjaldheyrð hljóðfæri sem heimildir erum um að hafi verið til á Íslandi á öldum áður, svo sem á symfón, gígju, hörpu, langspil og gemshorn. Það var mál manna að einstaklega innilegt andrúmsloft hafi skapast á tónleikunum.

Leyndarmál sem ég vil afhjúpa var yfirskrift útgáfutónleika söngkonunnar Guðrúnar Jóhönnu Ólafsdóttur og Dúó Roncesvalles, sem skipað er spænsku systkinunum Elenu Jáuregui og Francisco Javier Jáuregui, en öll verkin á disknum voru samin eða útsett með flytjendurna í huga. Þar hljómuðu meðal annars útsetningar á sönglögum sefardískra gyðinga frá miðöldum og spænskum þjóðlögum, verk eftir núlifandi spænsk tónskáld og frumflutningur á verki Þóru Marteinsdóttur (fædd 1978) Ég er brott frá þér bernska, við ljóð Halldórs Laxness, við góðar undirtektir hlustenda.

Á lokatónleikum hátíðarinnar kom kórinn Hljómeyki fram undir stjórn Mörtu Guðrúnar Halldórsdóttur á tónleikunum Á góðri stund, en kórinn heldur nú upp á sitt fertugasta starfsár. Þar mátti heyra kórtónlist allt frá sextándu öld til nýrra verka eftir suma af meðlimum kórsins í sérlega vönduðum flutningi. Tvö lög við ljóð Bjarka Karlssonar eftir Hildigunni Rúnarsdóttur voru frumflutt á tónleikunum. Mikla kátínu vakti þegar börn úr skapandi tónlistarsmiðju undir stjórn Skálmaldarmannsins Gunnars Ben röppuðu og sungu með kórnum.

Áheyrendur Kammertónleika á Kirkjubæjarklaustri voru nú sem fyrr heimamenn, ferðalangar og fólk sem lagði leið sína sérstaklega af höfuðborgarsvæðinu til að hlýða á tónleikana. Listrænn stjórnandi er Guðrún Jóhanna Ólafsdóttir, mezzósópransöngkona.

Næsta hátíð, með þrennum tónleikum og tónlistarsmiðju fyrir börn, verður haldin að ári, helgina 26. – 28. júní 2015, svo áhugasamir geta farið að panta gistingu á svæðinu! Allar upplýsingar má finna á vefsíðunni www.kammertonleikar.is

Fyrri greinEfla hestaíþróttir í Flóahreppi
Næsta greinMógil spilar á Sólheimum