Sönghátíð á Klaustri um næstu helgi

Hinir árlegu Kammertónleikar á Kirkjubæjarklaustri verða haldnir um næstu helgi, 10.-12. ágúst. Um sannkallaða sönghátíð er að ræða.

Á tónleikunum má heyra mannsröddina hljóma í einsöng, tvísöng og kórsöng, við undirleik og a cappella í sínum tæra einfaldleik.

Á föstudag kl. 21 er flutt dagskráin Oh, my love is like a red, red rose. Hrólfur Sæmundsson baritón, Guðrún Jóhanna Ólafsdóttir mezzósópran og Francisco Javier Jáuregui gítarleikari flytja þjóðlagaútsetningar eftir Britten og Seiber, Koyunbaba eftir Domeniconi og skosk þjóðlög.

Á laugardag kl. 17 eru tónleikarnir Álfakóngurinn og aðrir heiðursmenn þar sem flutt verða .ýsk og íslensk sönglög og ballöður. Bjarni Thór Kristinsson bassi og Ástríður Alda Sigurðardóttir píanó flytja sönglög eftir Sveinbjörn Sveinbjörnsson, Loewe, Wolf, Schubert og Brahms.

Á sunnudag kl. 15 verður flutt íslensk og erlend kórtónlist. Kammerkór Suðurlands undir stjórn Hilmars Arnar Agnarssonar, Hrólfur Sæmundsson baritón og Guðrún Jóhanna Ólafsdóttir mezzósópran. Frumflutt verður nýtt verk eftir Kjartan Sveinsson úr Sigur Rós. Kórverk eftir Sir John Tavener, Völu Gestsdóttur, Georg Kára Hilmarsson, Örlyg Benediktsson, Báru Grímsdóttur, Ingibjörgu Bergþórsdóttur, Guðnýju Valborgu Guðmundsdóttur, Möggu Stínu og Snorra Hallgrímsson.

Hátíðin fer fram í félagsheimilinu Kirkjuhvoli.

Nánar á www.kammertonleikar.is