Söngfuglar og kertagerð í listasafninu

Í skammdeginu býður Listasafn Árnesinga upp á ýmislegt sem hægt er að gera sér glaðan dag úr. Fimmtudaginn 3. desember kl. 17 koma Söngfuglar Margrétar Stefánsdóttur og flytja gestum nokkur lög úr ýmsum áttum.

Söngfuglarnir eru stúlkur á aldrinum 10-15 ára sem leggja stund á söngnám í Tónlistaskóla Árnesinga og það er Hveragerðisdeildin sem kemur fram í Listasafni Árnesinga.

Sunnudaginn 6. desember býður Listasafn Árnesinga öllum að taka þátt í kertagerð undir leiðsögn Guðrúnar Tryggvadóttur, en sama dag opnar jóladagatal Hveragerðisbæjar í Listasafninu með kertatákninu og eftirfarandi skýringartexta:

„Kertaljósið er í hefðbundnu jólahaldi okkar, jólaljósið sjálft. Ljósið býr yfir djúpstæðri merkingu um jólaboðskapinn. Það býr yfir frumkraftinum; eldinum sem er táknrænn fyrir lífið sjálft, einkum hið innra líf. Það er ljósið innra með okkur; trúin, vonin og kærleikurinn.“ Það er bæði skemmtilegt og tiltölulega auðvelt að gera kerti úr kertaafgöngum og heimagerð kerti eru persónuleg gjöf sem gaman er að gefa þeim sem okkur þykir vænt um.

Í safninu er einnig að sjá tvær sýningar, annars vegar MÖRK þar sem sjá má fjölbreytt verk sem öll eru unnin í pappír og hinsvega Listamannabærin Hveragerði – fyrstu árin og tillögu að útfærslu í útisýningu. Auk þess að skoða sýningarnar er hægt að vinna með pappír í listasmiðjunni, teikna, lita, klippa og eða líma.

Síðasti sýningardagur þessa árs er sunnudagurinn 13. desember, en safnið verður opnað á ný fimmtudaginn 13. janúar.

Fyrri greinFormaðurinn fer fyrir fríðum hópi höfunda
Næsta greinOfsaveðri spáð á morgun við suðurströndina