Listakonan Sólrún Björk hefur opnað sölusýningu á verkum sínum í Listagjá Bókasafns Árborgar á Selfossi og mun sýningin standa til 28. ágúst.
Sólrún Björk er uppalin á Selfossi en hefur undanfarin ár dvalið langdvölum í Bandaríkjunum. Hún er með kennararéttindi frá Bob Ross skólanum í Bandaríkjunum í landslags-, blóma og dýralífsmálun. Hún lauk meistaranámi og kennsluréttindum í sjávarmálun 2013 hjá einum af bestu listamönnum Bandaríkjana, Joyce Ortner.
Sólrún hefur einnig lagt stund á tækni gömlu meistaranna, t.d. Rembrant og Ruben undir handleiðslu kennarans Evu Roffe.
Hún hefur málað með þekktum listamönnum og meisturum svo sem Gary Jenkins, Dorothy Dent, Bill Bayer og Scott Mattlin.
Margir Íslendingar hafa notið góðs af leiðsögn hennar hér heima þar sem hún hefur haldið námskeið víða um land.