Sólarkaffi Vestfirðinga á Suðurlandi

Nokkrir Vestfirðingar, sem búa á Suðurlandi, boða til sólarkaffis að hætti Vestfirðinga sunnudaginn 14. febrúar í Félagsheimilinu Stað á Eyrarbakka kl. 14:00 til 17:00.

Alsiða er í byggðum Vestfjarða að drekka sólarkaffi með pönnukökum þegar sólin sést aftur eftir skammdegið. Þessi siður hefur ekki verið á Suðurlandi enda sést sól þar alla daga ársins. Með þessu vilja aðfluttir Vestfirðingar á Suðurlandi gefa sveitungum að vestan kost á að hittast í sólarkaffi og jafnframt kynna þennan góða sið fyrir Sunnlendingum og öðrum hér um slóðir.

Á sólarkaffinu verður Elfar Guðni Þórðarson listmálari á Stokkseyri með málverkasýningu á Stað sem nefnist -Frá Djúpi til Dýrafjarðar- Elfar Guðni hefur fimm sinnum á þessari öld dvalið á Sólbakka í Önundarfirði í samtals þrjá mánuði og málað mikið í vestfirskri náttúru. Hann segist hvergi utan heimaslóðar sinnar hafa orðið fyrir jafn sterkum áhrifum til listsköpunar eins og vestra og má sjá þetta á sýningunni.

Þá mun Önfirðingurinn á Eyrarbakka, Víðir Björnsson, sýna nokkrar af ljósmyndum sínum sem hann hefur tekið á síðustu misserum í Flóanum og víðar á Suðurlandi.

Tíu heppnir gestir muni fá bókaglaðning frá Vestfirska forlaginu á Þingeyri sem hefur í rúm tuttugu ár verið gríðarlega kröftugt menningarafl Vestfirðinga.

Vitað er um menn sem koma langt að til sólarkaffisins; svo sem tónlistarmennirnir Jón Kr. Ólafsson frá Bíldudal og Siggi Björns frá Berlín.

Allir hjartanlega velkomnir meðan húsrúm leyfir.

Fyrri greinBjóða sameiginlega út sorphirðu
Næsta grein„Gerðum bara allt of mörg mistök“