Söguleg skáldsaga um þýska flóttamenn í Hekluhrauni

„Undir hrauni“ heitir ný skáldsaga eftir Finnboga Hermannsson rithöfund og fréttamann á Ísafirði. Sagan byggir á sögulegum atburðum hér á landi á stríðsárunum.

Útgefandi er bókaútgáfan Sæmundur á Selfossi.

Aðfaranótt 10. maí 1940 þegar Bretar tóku Ísland herskildi flúðu tveir þýskir skipbrotsmenn úr Reykjavík með senditæki í fórum sínum og tóku sér bólfestu austur í Rangárvallasýslu. Annar flóttamannanna átti í ástasambandi við íslenska stúlku, Helgu Maríu dóttur Tryggva Gunnarssonar bankastjóra. Mennirnir höfðust við í Hekluhrauni og unnu launalítið í púlsvinnu fyrir bóndann í Selsundi.

Bretar gerðu ákafa leit að piltunum strax eftir flóttann, miðuðu út tæki þeirra en gripu í tómt. En eftir að fé hafði verið lagt til höfuðs piltunum komst breska herstjórnin á snoðir um þá og flutti utan.

Æsileg saga þýsku flóttamannanna í Hekluhrauni og ástarævintýri Maríu Tryggvadóttur eru hér fléttuð meistara lega saman í heimildaskáldsögu Finnboga Hermannssonar fréttamanns á Ísafirði.

Finnbogi Hermannsson fréttamaður á Ísafirði er löngu landsþekktur fyrir einstæða frásagnarhæfileika. Undir hrauni er tólfta bók höfundar.

Fyrri greinStefnt að bættu fjarskiptasambandi í Þrengslunum
Næsta greinVerk Svövu Sigríðar á jólakortum Blindrafélagsins