Söguganga um Þorláksleið í Skálholti

Sr. Kristján Björnsson vígslubiskup er leiðsögumaður í göngunni. Ljósmynd/Skálholt

Laugardaginn 5. júní verður söguganga í Skálholti, þar sem gengin verður Þorláksleið.

Dagskráin hefst með vöfflukaffi í Skálholtsskóla kl. 15:00. Þegar göngufólk hefur náð sér í nægja orku verður gengið um leið Þorláks Helga í Skálholtsstað undir leiðsögn sr. Kristjáns Björnssonar vígslubiskups.

Gengið er út á heimatorfuna. Þaðan er farið um helstu sögustaði á hlaðinu, framhjá Prenthúsinu og niður vestari biskupstraðir, áð við Þorláksbrunn og fjósakeldu, gengið ofan að Skálholtsbúðum (Oddsstofu) og niður í Stekkatún við Hvítá. Þaðan er gengið yfir að Þorlákshver við Brúará og heim með áningu við „Búnaðarháskóla“ (sem einu sinni átti að byggja) og framhjá skírnarskóginum.

Þessi leið er einnig kölluð Þorláksleið sem verið hefur í uppbyggingu. Gangan tekur um 2-3 tíma og lýkur með kótilettukvöldverði og eftirrétti í skólanum um kl. 19:00.

Fólk er beðið að klæða sig eftir veðri og vera á góðum skóm en gangan er frekar létt og allir stígar og vegaslóðar eru ýmist malbornir eða vel slegnir, stikaðir og þægir á fótinn.

Verð með skráningargjaldi, kaffi og kvöldverði og eftirrétti er 10.700 krónur og fer skráning fram á heimasíðu Skálholts.

Fyrri greinAldís og Jóhanna himinlifandi með rafskúturnar
Næsta greinSaman erum við sterkari