Snjókristallar í Listasafninu

Snjókristallagerð og leiðsögn um sýninguna Þjóðleg fagurfræði er meðal þess sem er á dagskrá á síðasta sýningardegi ársins í Listasafni Árnesinga í Hveragerði í dag.

Í tengslum við Jól í bæ í Hveragerði verður opnaður jólagluggi í Listasafninu í dag kl. 13. Hönnuður tákna dagatalsins er Guðrún Tryggvadóttir myndlistarmaður og táknið í jólaglugga safnsins í ár er snjór. Af því tilefni er gestum boðið að taka þátt í gerð snjókristalla úr ýmsu efni sem verður til staðar í safninu endurgjaldslaust.

Einhverjir snjókristallar verða valdir til þess að skreyta glugga safnsins en gestum er líka velkomið að búa til snjókristalla og taka með heim. Snjókristalagerð verður í gangi allan daginn og þáttakendum boðið upp á safa, kaffi og piparkökur.

Leiðsögn og samræður um sýninguna Þjóðleg fagurfræði verður klukkan 15 með Ingu Jónsdóttur sýningarstjóra.

Safnið verður síðan lokað til laugardagsins 15. janúar 2011.