Smá og stór einkasöfn á safnarasýningu

Gömul lækningatæki, fingurbjargir, teskeiðar, bjöllur, bollastell, þjóðbúningadúkkur, hestar, kýr og fuglar eru á meðal þess sem sjá má á safnarasýningu á Flúðum í dag.

Upplit, menningarklasi uppsveita Árnessýslu, stendur fyrir sýningunni í Félagsheimilinu á Flúðum í dag kl. 13-17. Sýningin er framlag Upplits til Safnahelgar á Suðurlandi.

Fjölmargir safnarar taka þátt í sýningunni. Þeir verða flestir á staðnum og sýna söfnin sín auk þess sem þeir geta sagt áhugasömum gestum sögur af tilurð safnanna. Einnig ætti sýningin að vera kærkomið tækifæri fyrir safnara að hitta aðra safnara og skiptast á upplýsingum og skoðunum um söfnin.

Aðgangur er ókeypis og allir eru velkomnir.