Skyldumæting öllum þeim sem annt er um eigið líf og heilsu

Leikdeild Ungmennafélags Gnúpverja frumsýnir í kvöld leikritið Heilsugæslan, eftir Lýð Árnason, lækni í Laugarási, sem einnig leikstýrir verkinu.

Um er að ræða hárbeitt grín þar sem skyggnst er á bak við tjöldin og heilbrigðisþjónustan skræld inn að beini. Leikarar hafa lagt sig í líma til að ná hlutverkum sínum, m.a. þreytt ameríska læknaprófið sem þykir hið þyngsta í heimi, numið háttvísi hjá Pétri í Laugarási, lagt á sig ristilspeglanir, hlaðið á sig aukakílóum og skipt um kyn.

Sýnt er í félagsheimilinu Árnesi og hægt er að kynna sér aðra sýningartíma á Fésbókarsíðu leikdeildarinnar.

Leikdeildin hefur verið starfrækt síðan 1914 og ber fólki saman um að þetta sé lang metnaðarfyllsta verk hennar til þessa og skyldumæting öllum þeim sem annt er um eigið líf og heilsu.

Fyrri greinViltu gera fjölnota tösku úr notuðu plasti?
Næsta greinÞrettán sækja um varðstjórastarf sjúkraflutninga