Skuggaleg skemmtun Lúðrasveitar Þorlákshafnar

Lúðrasveit Þorlákshafnar er margt til lista lagt. Ljósmynd/Aðsend

Lúðrasveit Þorlákshafnar hefur átt einstaklega viðburðaríkt ár og komið fram og verið með óvenja marga og fjölbreytta viðburði.

Hæst ber þar þátttöku í 60 ára afmælistónleikum Karlakórs Selfoss, „Sing-a-long“ tónleika í Þorlákshöfn þar sem áhorfendur voru virkir þátttakendur, Bræðsluna á Borgarfirði eystri og nú síðast tónleika lúðrasveitarinnar í Þorlákskirkju í tilefni á 40 ára vígsluafmæli kirkjunnar þar sem helsta áherslan var á norræn verk.

Enn er komið að viðburði og nú er yfirskriftin Hrekkjavökutónleikar. Lúðrasveitin hefur fyrir þetta spennandi verkefni æft fjölbreytt og skemmtilegt prógramm með blandi af gamni og alvöru, frá tærri fegurð yfir í hrollvekjandi tóna. Stefin eru vel þekkt og eiga það sameiginlegt að leika við ímyndunaraflið og jafnvel galdra fram gæsahúð.

Ágústa Ragnarsdóttir, formaður LÞ. Ljósmynd/Aðsend

Tónleikarnir henta allri fjölskyldunni nema þeim allra yngstu og áhorfendur hvattir til þess að mæta í sínu allra hræðilegasta dressi því það munu lúðrameðlimir gera, þess ber þó að geta að prúðbúið fólk er hjartanlega velkomið!

Tónleikarnir eru lokahnykkur hinnar svokölluðu Þollóween-viku sem haldin er ár hvert í Þorlákshöfn í tilefni Hrekkjavökunnar og verða sunnudaginn 2. nóvember kl. 20:00 í Ráðhúsi Ölfuss í Þorlákshöfn. Miðasala á tix.is.

Fyrri greinVæri sniðugt að versla í heimabyggð?
Næsta greinEr gjörsamlega ónothæfur í eldhúsinu