Skráning í Uppsveitastjörnuna hafin

Skráning í Uppsveitastjörnuna, hæfileikakeppni uppsveitanna, er hafin og stendur til 16. október – en fyrsta forkeppnin fer fram í félagsheimilinu Borg í Grímsnesi laugardaginn 20. október kl. 15-17.

Því er ekki eftir neinu að bíða fyrir hæfileikaríkt uppsveitafólk á öllum aldri með að skrá sig í keppnina, æfaatriði og slá í gegn!

Allir í uppsveitunum geta tekið þátt – og er lögheimili á svæðinu ekki krafa. Geti keppandi sýnt fram á sannfærandi tengsl við uppsveitirnar er sjálfsagt mál að hann fái að skrá sig til keppni. Upplit hvetur unga jafnt sem aldna, einstaklinga og hópa, t.d. vinnufélaga, skólafélaga, vinahópa og fjölskyldur, tilað taka þátt og keppa um titilinn Uppsveitastjörnuna.

Vakin er athygli á því að Uppsveitastjarnan blæs á allar hreppagirðingar. Þannig er t.d. ekkert því til fyrirstöðu að Hreppamenn skrái sig til keppni á Borg, rétt eins og keppendur úr Bláskógabyggð geta keppt í Árnesi o.s.frv.

Dómnefnd skipuð valinkunnum einstaklingum úr uppsveitunum ásamt gestadómurum velur þrjú bestu atriðin í hverri forkeppni, sem síðan keppa til úrslita í Aratungu 1. mars. Frumleiki, skemmtun og sköpunargleði vega þungt þegar atriði eru valin í úrslit.

Hámarkslengd atriða er fimm mínútur – en þau mega líka gjarnan vera styttri. Annars fá keppendur frjálsar hendur og um að gera að láta hugmyndaflugið ráða för. Veitt eru verðlaun og allir þátttakendur fá auk þess viðurkenningu.

Skráning stendur eins og áður sagði til 16. október. Tekið er við skráningum á upplit@upplit.is og í síma 898 1957.

Fyrri greinÞingmenn funduðu með sveitarstjórnar-mönnum
Næsta grein3,2 stiga skjálfti í Kötlu