Aflýst: Skottsölu-markaður á laugardaginn

Skrúfan á Eyrarbakka. Ljósmynd/Jóhanna SH

ATH. Markaðnum hefur verið aflýst vegna veðurs.

Laugardaginn 2. september verður skottsölu-markaður á bílaplani Skrúfunnar á Eyrarbakka. Þá mætir fólk á bílunum sínum og selur úr bílskottinu, hluti sem það vill selja.

„Ég elska að gefa af mér til samfélagsins. Margir hafa fullt af dóti, fatnaði og öðru sem það vill selja eða losna við. Mér datt í hug að svona car boot sale væri sniðugt en ég bjó erlendis í Bretlandi í fjögur ár og þá elskaði ég að fara á svona skottsölu markaði. Það var endalaust hægt að finna, fjársjóðurinn var alls staðar. Ég vona að það verði hægt að endurvekja minningarnar og samfélagið taki þátt í að skapa skemmtilegan markað með öðru sniði.“ segir Berglind Björgvinsdóttir, hjá Skrúfunni, í samtali við sunnlenska.is.

Berglind Björgvinsdóttir, eigandi Skrúfunnar. sunnlenska.is/Jóhanna SH

Fólki velkomið að selja hvað sem er
Berglind segir að skottsölu-markaðurinn sé fyrir alla. „Það eru allir velkomnir, hvort sem fólk vill selja, eða koma og skoða, jafnvel versla sér eitthvað fallegt. Það eru að nálgast tíu skott sem verða með á markaðnum og þetta verður geggjað skemmtilegt.“

„Það er pláss fyrir alla, við gerum söluna út götuna ef þess þarf. Ég er ekki mikið fyrir að skilja útundan og vil ávallt leyfa öllum að vera með, þannig er þetta skemmtilegast. Það kostar 2.000kr að vera með en það er styrkur fyrir Skrúfuna. Ég hvet alla sem vilja vera með að senda á skrufan@skrufan.is og láta vita. Það er öllum velkomið að selja hvað sem er en það mikilvæga er að við viljum sjá alla mæta og taka þátt í gleðinni.“

Berglind minnir á að það sé enginn posi á staðnum, svo að það er mikilvægt að hafa reiðufé með sér vilji maður kaupa eitthvað.

Ljósmynd/Aðsend

Skemmtilegt þegar samfélagið vinnur saman
Margt annað skemmtilegt verður á skottsölu-markaðnum á laugardaginn. „Við erum að reyna að hafa bakkelsi á staðnum til sölu, tónlist og vinnum hörðum höndum að gera skemmtilega stemningu á staðnum. Auður Ottesen hjá Sumarhúsinu og garðinum verður með plöntur og allskonar til sölu og ég er viss um að það sé lítið mál að fá góð svör um plöntur og garðinn sinn hjá henni. Að auki verður Skúbb ísinn á 50% afslætti á meðan birgðir endast.

„Það er svo skemmtilegt þegar samfélagið vinnur saman og hjálpast að við að skapa skemmtilegar uppákomur í sveitarfélaginu okkar. Ef einhverjir hafa áhuga að taka þátt eða vera með þá má endilega hafa samband við okkur. Ég hlakka til að sjá alla á laugardaginn!“ segir Berglind að lokum.

Sem fyrr segir verður skottsölu-markaðurinn haldinn á bílaplani Skrúfunnar að Hafnarbrú 3 á Eyrarbakka. Markaðurinn stendur frá klukkan 11:00-17:00.

Facebook-viðburður skottsölu-markaðarins

Fyrri greinViðgerðum lokið í Sunnulæk
Næsta greinSelfoss byrjaði á jafntefli