Skólakór frá Ástralíu í Skálholti

Kór St. Michael’s Grammar School frá Melbourne í Ástralíu verður með tónleika í Skálholtskirkju í kvöld, þriðjudag kl. 20:00.

Yfirskrift tónleikanna er Frá miðöldum til barokks en þeir eru áttundu tónleikar sumarsins í tónleikaröðinni Sumartónleikar í Skálholtskirkju.

Verkin á efnisskránni eru m.a. eftir Thomas Morley, Clement Janequin, Andreas Hammerschmidt, Johann Pachelbel, Johann Sebastian Bach og Dietrich Buxtehude. Auk þess verður flutt sónata fyrir flautu og orgel eftir Jean-Marie Leclair.

Stjórnandi kórsins er Gary Ekkel, og hann leikur einnig á barokkflautu. Með honum á orgel leikur Tom Healey.

Kór St. Michael’s Grammar School er í sinni fjórðu tónleikaferð um Evrópu í sumar. Í kórnum eru 30 meðlimir sem valdir hafa verið úr fimm kórum eldri nemenda skólans ásamt því að hafa þreytt inntökupróf. Kórdeild skólans hefur verið í þróun síðustu 20 árin af 107 ára sögu skólans, fyrst af Ian Harrison og síðan Dr Gary Ekkel frá 1996.

Vefsíða Sumartónleika hefur að geyma upplýsingar um dagskrá og flytjendur.

Fyrri greinFrostavetur framundan ef ekkert gerist
Næsta greinEinar ráðinn í Vallaskóla