Skoðar hvernig fólk fer í sund

Á morgun, laugardaginn 11. maí, opnar ljósmyndasýningin „Swim Zone (Out) in the Thermal Pools of Iceland“ í Gallerý Ormi á Hvolsvelli.

Myndirnar eru verk Kolbrúnar Vöku Helgadóttur en þær voru hluti af meistaraverkefni hennar frá Goldsmiths University í London. Verkefnið fjallaði um sundlaugamenninguna á Íslandi.

„Í verkefninu skoðaði ég meðal annars hvernig fólk fer í sund til að slaka á og losna undan skarkala borgarinnar og hversdagslífsins. Myndirnar eru teknar í og við náttúrulegar laugar á Íslandi og eiga að lýsa tilfinningunni þegar maður dýfir sér ofan í laugina og verður hluti af náttúrunni um stund,“ segir Kolbrún Vaka sem er fædd og uppalin á Hvolsvelli.

Þrátt fyrir að hafa klárað mastersverkefnið sitt árið 2009, þá hefur Kolbrún Vaka ennþá mikinn áhuga á sundlaugarmenningunni. „Ég hef haldið áfram að taka sundmyndir. Nokkrar af þessum nýju myndum verða til sýnis í Gallerý Ormi, meðal annars myndir sem ég tók í fiskikerjum fullum heitu vatni sem ég fann á leynistað á miðju höfuðborgarsvæðinu,“ segir Kolbrún Vaka sem útskrifaðist úr ljósmyndun og borgarfræði frá Goldsmiths University. Auk þess er Kolbrún Vaka með BA gráðu í mannfræði frá Háskóla Íslands.

Kolbrún Vaka segist haft áhuga á ljósmyndun síðan hún man eftir sér. „Ég hef alltaf elskað að documentera hversdagslífið í kringum mig og ég er alltaf með myndavélina á lofti hvert sem ég fer. Ég á orðið óheyrilega mikið magn af ljósmyndum en mér finnst þær algjör fjársjóður enda elska ég að skoða gamlar myndir,“ segir Kolbrún Vaka og bætir við að henni finnist skemmtilegast að taka hversdags myndir af fólki. „Ég hef ekki mikinn áhuga á því að taka uppstilltar myndir. Ég vil hafa þetta sem náttúrulegast,“ segir hún.

Kolbrún Vaka segist þó ekki vera nein ógurleg tækjamanneskja þegar kemur að myndavélum. „Hversdagslega tek ég myndir á iPhone-inn minn sem mér finnst alveg frábær græja! En ég á Canon 350d sem ég keypti mér árið 2006, hún hefur reynst mér mjög vel. Svo á ég litla Canon G11 sem er æðisleg að mínu mati. Systir mín gaf mér vatnshelt hulstur utan um þá vél sem hefur komið sér afar vel í sundlaugarferðunum,“ segir Kolbrún Vaka að lokum.

Sýningin opnar kl. 14 laugardaginn 11. maí og mun standa til 30. júní.

Fyrri greinAndri Páll fór á kostum
Næsta greinSkuldir í lágmarki og rekstrarafgangur eykst