Skítamórall með fyrstu stóru tónleika sumarsins

Skítamórall í núverandi mynd.

Fyrstu stórtónleikar sumarsins 2020 verða 26. júní þegar hljómsveitin Skítamórall fær loksins að fagna 30 ára afmæli sínu í Eldborgarsal Hörpu.

Til stóð að halda tónleikana þann 9. maí síðastliðinn, áður en COVID faraldurinn skall á.

Á tónleikunum mun sveitin spila öll sín vinsælustu lög og spila þau nákvæmlega eins og um risa sveitaball ball væri að ræða. Umgjörðin verður hin glæsilegasta og ekkert til sparað við að búa til ógleymanlega kvöldstund sem enginn sannur Skímó aðdáandi má láta fram hjá sér fara.

Eldborg verður skipt upp í svæði miðað við gildandi hámarksfjölda á tónleikadag, sem líklega verða 500 manns. Inngangar á svæðin verða aðskildir og nokkur svæði verða í boði fyrir þá sem óska eftir að halda 2 m samskiptafjarlægð. Allir áður keyptir miðar munu gilda áfram en þeir sem vilja halda 2 metrunum er bent á að hafa samband við miðasölu Hörpu til þess að fá nýja miða. Framboð er takmarkað.

Skítamórall. Ljósmynd/Golli

Hljómsveitina Skítamóral skipa:
Gunnar Ólason, söngur/gítar
Einar Ágúst Víðisson, söngur/gítar/ásláttur
Jóhann Bachmann, trommur
Herbert Viðarsson, bassi
Gunnar Þór Jónsson, gítar
Arngrímur Fannar Haraldsson, gítar.

Skítamórall árið 2010.

ÞRJÁTÍU ÁRA SAGA Í ÞREMUR MÁLSGREINUM
Skítamórall er íslensk hljómsveit sem var stofnuð árið 1989 af þeim Gunnari Ólasyni söngvara og gítarleikari, Herberti Viðarsyni bassaleikara, Jóhanni Bachmanni Ólafssyni trommara og Arngrími Fannari Haraldssyni gítarleikara. Þeir eru allir fæddir árið 1976 og koma frá Selfossi. Það var hálfbróðir Arngríms, Einar Bárðarson sem lagði til að nafnið Skítamórall yrði notað. Hljómsveitin gaf út sinn fyrsta geisladisk, Súper árið 1996, Tjútt fylgdi svo í kjölfarið árið 1997, Nákvæmlega árið 1998 og Skítamórall árið 1999. Sveitin náði strax nokkrum vinsældum með fyrstu tveimur diskunum sínum en geisladiskurinn Nákvæmlega náði að festa sveitina í sessi sem eina af vinsælustu sveitaballahljómsveitum landsins. Einar Ágúst Víðisson bættist í hópinn árið 1997 þegar hljómsveitin spilaði á Þjóðhátíð í Eyjum sem söngvari, ásláttar- og gítarleikari.

Geisladiskurinn Nákvæmlegasem innihélt m.a. lagið Farin sem náði miklum vinsældum og var á toppi íslenska listans í þrjár vikur árið 1998, hlaut gullplötu. Árið 2000 var hinsvegar toppur ferilsins hjá strákunum í Skítamóral en sveitin hætti í kjölfar mikillar vinnu í byrjun árs 2001. Skítamórall kom saman aftur á Hlustendaverðlaunum FM957 haustið 2002. Sumarið 2014 lék hljómsveitin viða um land en síðsumars skildi Einar Ágúst við hljómsveitina. Árið 2005 gaf hljómsveitin út sína fimmtu hljómplötu sem hlaut nafnið Má ég sjá og gerði hljómsveitin myndbönd við nokkur lög af plötunni sem leikstýrt var af Hannesi Þór Halldórssyni, síðar landsliðsmarkverði í fótbolta.

Í byrjun árs 2009 gekk gítarleikarinn Gunnar Þór Jónsson til liðs við hljómsveitina sem síðar sama ár hélt upp á 20 ára afmæli með tónleikum á Rúbín við Öskjuhlíð. Í kjölfarið var gefinn út tónleikadiskurinn Ennþá en disknum fylgdi einnig DVD með öllum myndböndum hljómsveitarinnar. Einar Ágúst gekk aftur til liðs við hljómsveitina árið 2014 og hefur hún síðan þá komið fram einstöku sinnum og sent frá sér nokkur lög. Í maí 2020 ætlar hljómsveitin að koma fram í félagsheimili allra landsmanna, Hörpu.

Önnur breiðskífa hljómsveitarinnar, Tjútt, kom út árið 1997.

PLÖTUR HLJÓMSVEITARINNAR
• Súper (1996)
• Tjútt (1997)
• Nákvæmlega (1998)
• Skítamórall (1999)
• Skímó – Það besta frá Skítamóral (2003)
• Má ég sjá (2005)
• Ennþá (2010)

Fyrri greinBíll og rafmagnsvespa í árekstri
Næsta greinEngin dagskrá á sjómannadaginn