Hljómsveitin Skítamórall verður heldur betur í hátíðargallanum um helgina. Í kvöld, föstudagskvöld, verður Skítamórall á Selfossi, nánar tiltekið á Sviðinu og hefjast tónleikarnir kl. 21:00.
Annað kvöld, laugardagskvöld, verða þeir svo með vinum sínum Á móti sól í Hlégarði með risavaxið sunnlenskt sveitaball og þar byrjar giggið klukkan 22:00. Hægt er að verða sér út um miða og frekari upplýsingar á tix.is.
Hljómsveitin Skítamórall fagnar 35 ára afmæli í vor en sveitin var stofnuð í apríl árið 1989 á Selfossi þegar drengirnir voru fjórán ára. Sveitin kom svo fram í fyrsta sinn vorið 1990. Hljómsveitin er eitt stærsta nafn aldamótakynslóðarinnar og lög eins og Farin, Myndir, Svífum, Ennþá, Fljúgum áfram og fleiri fleiri eru fyrir löngu orðin einkennislög þessa kröftuga tímabils í íslenskri tónlist.
Skítamóral skipa þeir Gunnar Ólason söngur/gítar, Jóhann Bachmann trommur, Herbert Viðarsson bassi, Gunnar Þór Jónsson gítar og Arngrímur Fannar gítar.