Skemmtileg origamiverk í þrívídd

Ný sýning var opnuð á Bókasafninu í Hveragerði um síðustu helgi. Þar sýnir Egill Helgi Guðjónsson þrívíddar-origami.

Egill er fjórtán ára gamall og var í 8. bekk grunnskólans í Hveragerði í vetur. Hann hefur búið í Hveragerði frá sjö ára aldri.

Áhugi Egils á pappírsbroti kviknaði fyrir nokkrum árum þegar hann langaði til að læra að brjóta „gogg“. Hann leitaði að leiðbeiningum um það á netinu og rakst þá á upplýsingar um origami. Origami er japönsk hefð í pappírsbroti og eru bæði til einföld og flókin brot sem hægt að gera úr hina margvíslegustu gripi. Egill gerir mest þrívíddarbrot, þar sem búnir eru til margir samskonar bitar sem síðan er raðað saman í allskonar fígúrur. Stærsti gripurinn sem Egill hefur gert er úr u.þ.b. 1000 bitum.

Á sýningunni er ýmislegt að sjá, m. a. páfugla og blóm sem hann gerði til að skreyta með í fermingarveislunni sinni í vor. Einnig svanir sem hafa verið til sölu í Hverablómum og má geta þess að einn svanurinn seldist alla leið til Kína.

Egil langar til að búa til grip sérstaklega fyrir bókasafnið og fá safngesti í lið með sér við að brjóta bitana. Búið er að skera niður pappír og hefur Egill útbúið leiðbeiningar um hvernig á að brjóta hann. Vonir standa til að safngestir verði duglegir að brjóta pappírinn svo að safnið eignist fallegan grip eftir Egil.

Sýningin er opin um leið og safnið, mánudaga til föstudaga kl. 13-18:30 og laugardaga kl. 11-14.

Fyrri greinNýr bjór frá Ölvisholti
Næsta greinSumarlestur fyrir grunnskólakrakka