Skapandi sumar í Listasafni Árnesinga

Það er nóg um að vera hjá Listasafni Árnesinga í sumar. Ljósmynd/Aðsend

Í sumar verður sannkallað skapandi stuð í Listasafni Árnesinga þar sem boðið verður upp á fjölbreytt úrval námskeiða og smiðja fyrir börn og unglinga.

Silkiþrykksmiðja sem haldin var 7. júní vakti mikla lukku þar sem þátttakendur fengu tækifæri til að prenta ýmis myndefni á boli og annan fatnað. Vegna mikillar eftirspurnar verður boðið upp á aðra slíka smiðju síðar á árinu. Í maí fór einnig fram keramiksmiðja á einum af þessum einstöku góðviðrisdögum. Þar gátu þátttakendur setið úti við safnið og mótað ýmislegt úr leir, leidd áfram af hugmyndafluginu einu saman.

Hjá Listasafni Árnesinga gefst ungu fólki á að prófa fjölbreytt listform. Ljósmynd/Aðsend

Í júlí snýr svo hin sívinsæla flugdrekasmiðja aftur með listgreinakennaranum Arite Fricke, og í ágúst verður haldin ævintýraleg teiknismiðja. Þar að auki verða fleiri spennandi smiðjur á dagskrá síðar í haust og þær auglýstar á listasafnarnesinga.is og facebook síðu safnsins. Listasafnið er einnig í góðu samstarf við frístundaheimilið Bungubrekku í Hveragerði, sem stendur að tveimur teikninámskeiðum – annað í júní og hitt í ágúst og fer fram á listasafninu.

Dagana 7.–11. júlí býður safnið upp á myndlistarnámskeið fyrir unglinga á aldrinum 12–16 ára. Þar fá þátttakendur tækifæri til að prófa fjölbreytt listform og aðferðir undir leiðsögn faglærðra listamanna. Námskeiðið sameinar skemmtilega tilraunavinnu, skapandi hugsun og tæknilega færni. Meðal aðferða sem verða kynntar eru m.a. ljósmynda gel-þrykk, þurrnál á tetrapak (prenttækni), marbling (fljótandi litir á vatni), ýmsar æfingar í teikningu, blandaðir miðlar og textíltækni.

Markmiðið er að styðja við ungt listafólk í að finna og þróa sinn eigin stíl, efla sjálfstraust og fá innblástur í listsköpun sinni. Námskeiðið hentar jafnt byrjendum sem reyndari þátttakendum og er opið öllum, óháð búsetu — rétt eins og öll námskeið, smiðjur og viðburðir sem safnið býður upp á. Safnið leggur metnað í að bjóða upp á fjölbreytta og aðgengilega fræðslu og telur mikilvægt að efla tómstundaflóruna á svæðinu, svo allir geti notið sín á eigin forsendum. Leiðbeinendur á námskeiðinu verða Martyna Hopsa, textíllistakona frá Póllandi og starfsmaður safnsins, og Alda Rose Cartwright, myndlistarmaður og verkefnastjóri fræðslu hjá safninu. Gjaldið fyrir sumarnámskeiðið er 20.000 kr. Allur efniviður innifalinn. Takmarkað pláss!

Skráning fer fram með því að senda tölvupóst á: fraedsla@listasafnarnesinga.is. Opið er á Listasafni Árnesinga alla daga frá kl.12-17. Verkefnið er styrkt af Uppbyggingarsjóði Suðurlands.

Fyrri greinSkjálfti í Mýrdalsjökli
Næsta greinVignir Vatnar sigraði í Laugarvatnshellum