Skammdegisbæjarhátíðin Þollóween haldin í annað sinn

Grasker skorin út á Þollóween. Ljósmynd/Þollóween

„Skammdegisbæjarhátíð fyrir alla fjölskylduna, eða þau sem þora!“ er yfirskrift Þollóween sem haldin verður í Þorlákshöfn 28. október – 3. nóvember.

Hátíðin er nú haldin í annað sinn og er sem fyrr skipulögð af hópi vaskra mæðra úr þorpinu, sem allar gefa vinnu sína.

Dagskráin er hræðilega spennandi og þar kennir ýmissa grasa.

Sem dæmi um viðburði má nefna skelfilegu skrautsmiðjurnar þar sem allir hittast í Grunnskólanum í Þorlákshöfn til þess að búa til hryllilegt skraut og skera út í grasker. Ónotaleg sundstund er á sínum stað líkt og í fyrr og þá eru ratleikirnir Skuggar og skúmaskot, fyrir miðstig og Rökkur og ráðgátur fyrir elsta stig og fullorðna.

Grafir og bein, sem sló svo rækilega í gegn hjá yngstu kynslóðinni í fyrra verður endurtekinn, en hann gengur út á að finna bein sem einhverra hluta vegna eru í Skrúðgarðinum og til þess þurfa börnin auðvitað að nota vasaljós.

Draugahús við Oddabraut
Á meðal nýjunga í ár eru fyrrnefndir ratleikir, draugahúsið að Oddabraut 14 sem verður opið fyrir þau sem þora á laugardagskvöldið og flóamarkaðurinn Komdu og skoðaðu í kistuna mína, þar sem reikna má með stútfullum kistum af eigulegu góssi og sagt er að kisturnar verða fleiri en í Fossvogskirkjugarði. Tilvalið fyrir laugardagsrúnt í Þorlákshöfn. Einnig verður haldið Nornaþing á Hendur í höfn, þar sem nornir bæjarins safnast saman til að leggja á ráðin og skemmta sér fram á nótt.

Hér hafa verið taldir upp fjölmargir viðburðir en listinn er aldeilis ekki tæmdur og er áhugasömum bent á Facebook síðu Þollóween fyrir frekari upplýsingar. Allir eru velkomnir en nauðsynlegt er að skrá sig á suma viðburði og því borgar sig að skoða vel viðburðina á Facebook síðunni áður en lagt er af stað.

Góðar stundir þegar myrkrið hellist yfir

Skammdegisbæjarhátíðin Þollóween er hugsuð sem vettvangur þar sem íbúar og gestir þeirra geta átt góðar stundir saman nú þegar myrkrið er að hellast yfir. Mikil áhersla er lögð á að allir finni eitthvað við sitt hæfi i dagskránni og að hún bjóði líka upp á að fjölskyldur geti notið saman. Hópurinn sem stendur að skipulagi hátíðarinnar hlaut hvatningarverðlaun Heimilis og skóla síðasta vor.

 

Fyrri greinHaukur Þrastar skrifar undir
Næsta greinMetnaðarfull dagskrá á forvarnardeginum