Skálholtshátíð um helgina

Skálholtshátíð 2010 verður haldin um helgina en hún er að vanda haldinn þann sunnudag er næstur er Þorláksmessu á sumri.

Morgunsöngur verður báða dagana kl. 9.00 í kirkjunni og aftansöngur kl. 18.00.

Á laugardag heldur Sigurður Sigurðarson erindi í Skálholtsskóla um tíðabænina kl. 14.00 og Glúmur Gylfason kynnir starf við íslenskan tíðasöng. Kl 15.00 flytja Sumartónleikar Skálholtsmessu eftir Hróðmar I. Sigurbjörnsson. Flytjendur eru þau Björk Níelsdóttir, Eyjólfur Eyjólfsson og Stefán Sigurjónsson ásamt sínfóniettu sem Sigurbjörn Ari Hróðmarsson stjórnar.

Kl. 17.00 flytja sumartónleikar hljóðfæratónlist frá lokum endurreisnartímans. Einleikarar verða Steinunn Arnbjörg Stefánsdóttir, Mathurin Matharel og Brice Sailly.

Sunnudaginn 18. júlí verður hátíðarmessa kl. 14.00 þar sem Jón Bjarnason organisti stýrir söng Skálholtskórsins og Gissur Páll Gissurarson syngur einsöng. Sigurður Sigurðarson messar, en auk hans koma að altarisþjónustu þeir séra Egill Hallgrímsson, Kristinn Ólason, Guttormur Bjarnason og herra Karl Sigurbjörnsson. Í upphafi messunar koma þeir á staðinn sem tekið hafa þátt í pílagrímagöngu frá Þingvöllum. Eftir messu verður kirkjugestum boðið að þiggja veitingar í Skálholtsskóla.

Dagskránni lýkur svo með hátíðasamkomu í kirkjunni þar sem Gissur Páll Gissurarson syngur einsöng, Jón Bjarnason leikur einleik á orgelið og séra Halldór Gunnarsson flytur erindi um eldana.