Sjónvarpsmenn reglulega í heimsókn

Grunnskólinn í Þorlákshöfn er einn af sex skólum landsins, sem valdir hafa verið til þátttöku í tónlistarþáttaröð sem verður á dagskrá Ríkissjónvarpsins næsta vetur.

Tilgangur þáttanna er að varpa ljósi á gróskumikla tónlistarmenningu skólanna. Dagskrárgerðarmennirnir Jónas Sen, píanóleikari og Björn Emilsson stýra þáttunum.

Í lok janúar komu þeir í heimsókn til Þorlákshafnar ásamt kvikmyndargerðamönnum og söngkonunni Lay Low sem samið hefur lag sem krakkarnir í valgreininni „Tónleikur“, sem Ása Berglind Hjálmarsdóttir kennir, eiga að útsetja og frumflytja.

Sjónvarpsmennirnir munu koma nokkrum sinnum í skólann í vetur og fylgjast með vinnuferlinu, taka viðtöl við nemendur þar til þeir fara til Reykjavíkur og taka upp lagið fyrir þáttinn. Svipmyndir verða sýndar úr skólastarfinu og fjallað um sögu skólans.