Hrafnhildur Inga Sigurðardóttir, myndlistarkona á Sámsstaðabakka í Fljótshlíð, opnar einkasýningu í Gallerí Fold í Reykjavík laugardaginn 8. nóvember kl. 14.
Sýningin nefnist Sjónlína og þar sýnir Hrafnhildur Inga á sér nýja hlið. Sem fyrr eru það náttúruöflin sem eru í aðalhlutverki og ríkir sjaldan lognmolla í verkum hennar. Allt er kraftmikið; skýjafarið, rokið og ólgandi öldurnar. Einstaka sinnum lægir og má þá finna stöku stillu ef grannt er skoðað.
Hrafnhildur Inga á langan myndlistarferil að baki og hefur haldað fjölmargar einkasýningar og tekið þátt í samsýningum heima og erlendis. Sjónlína er sjöunda einkasýning Hrafnhildar Ingu í Gallerí Fold.
„Það sem grípur mann fyrst sem upplifanda verka Hrafnhildar Ingu er það hlutverk sem vatn spilar í list hennar. Freyðandi öldur, fossar, lækir, ský, hafflötur og fleira skapa að mörgu leyti grunnhughrif þess sem upplifir. Í túlkun er vatnið gjarnan séð sem tákn lífgjafarinnar. Hverfugleiki forms þess og magnað tilbrigði gerir vatnið allt í senn rómantískt, dramatískt, hættulegt, milt, ógnandi og allt um lykjandi. Vatnið er lifandi kjarni andans og farvegur orkunnar. Hrafnhildur Inga velur vatnið gjarnan sem leið til að draga upp dulúð sem oft byggir á dumbungi náttúrunnar, lægðunum, rokinu og rigningunni. Gjarnan má þó finna sterkari vilja ljóssins til að rífa sig í gegnum þykkjuna svona rétt eins og í lífinu sjálfu þar sem hið bjarta og góða í lífinu stendur okkur alltaf til boða ef við látum ekki bugast undan áföllum og dumbungi.“ – Elliði Vignisson


