Sirkus Íslands á Sumar á Selfossi

Sirkus Íslands mun ferðast um landið í sumar með nýja sirkustjaldið Jöklu. Meðal annars kemur sirkusinn við á Selfossi og ber heimsóknina upp á Sumar á Selfossi helgina.

Þrjár sýningar verða með í för; barnasýningin S.I.R.K.U.S. sem er sérsniðin að yngstu áhorfendunum, fjölskyldusýningin Heima er best og fullorðinssirkusinn Skinnsemi. Ferðalagið hefst í Reykjavík, þaðan til Ísafjarðar, Akureyrar, Keflavíkur og Selfoss.

Sirkusinn verður á Selfossi dagana 6. til 9. ágúst en þá helgi fer fram bæjarhátíðin Sumar á Selfossi.

Að sögn sirkusfólksins verða tuttugu listamenn með í för og eru æfingar hafnar, ekki bara fyrir sýningarnar sjálfar heldur líka í að setja upp tjaldið og taka það niður og reikna nú hinir færustu trúðar út hversu lengi hópurinn verður að reisa tjaldið og stinga öllu í samband.

Sirkusinn safnaði fyrir sirkustjaldinu Jöklu með hópfjármögnun á vefsíðunni Karolinafund. Forsala fyrir styrkjendur hófst í síðustu viku, en almenn miðasala hefst 13. maí.

Fyrri greinHafþór Mar lánaður í Selfoss
Næsta greinHalldóra endurkjörin formaður