Sir John Tavener á útgáfutónleikum Kammerkórsins

Í kvöld mun Kammerkór Suðurlands flytja verk Sir John Tavener í Kristskirkju í Reykjavík að viðstöddu tónskáldinu sjálfu.

Tónleikarnir eru útgáfutónleikar nýrrar hljómplötu kórsins, Iepo Oneipo, þar sem flutt eru tíu verk eftir Tavener. Diskurinn hefur fengið frábæra dóma í bresku tónlistarpressunni. Tónlistargagnrýnandinn Marc Rochester skrifar í The International Record Review að hér sé á ferðinni „…tónlistarflutningur af slíkum gæðum að ég myndi telja hann til grundvallarviðmiða.“

Tónleikarnir í kvöld fara fram í Kristskirkju við Landakot kl. 20:30 en þar kemur kórinn fram ásamt einsöngvurunum Guðrúnu Jóhönnu Ólafsdóttur, Hrólfi Sæmundssyni og breska bassasöngvaranum Adrian Peacock

Umfjallanir gagnrýnenda hafa orðið til þess að tónskáldið, Sir John Tavener, ásamt Lady Marianne Tavener, hafa ákveðið að koma hingað til lands frá London til að vera viðstödd útgáfutónleikana. Það er einstakt að Tavener skuli ætla að koma til landsins af þessu tilefni, því hann er heilsuveill og ferðast afar sjaldan.

Það telst til mikilla tíðinda að diskur áhugamannakórs nái slíkum árangri. Aðspurður segir stjórnandi og stofnandi kórsins, Hilmar Örn Agnarsson, hæversklega að þetta eigi sér eðlilegar skýringar; á Suðurlandi sé einfaldlega rík sönghefð og mjög mikið af vel skóluðu söngfólki!

Fyrri greinKreppumarkaðurinn styrkir hjálparsveitina
Næsta greinÁgúst Bjarni: Við þurfum stjórnlagaráð