Hrunamaðurinn Sigurður Emil Pálsson sigraði í söngkeppninni Blítt og létt í Menntaskólanum að Laugarvatni, sem haldin var í íþróttahúsinu á Laugarvatni í síðustu viku.
Sigurður Emil flutti Bubba-lagið Sumar konur með glæsibrag og hreppti því hinn margfræga verðlaunagrip Hljóðkútinn. Sigurður Emil verður hann fulltrúi skólans í Söngkeppni framhaldsskólanna sem haldin verður næsta vor.
Í öðru sæti varð Hjördís Katla Jónasdóttir frá Langholti í Flóahreppi með lagið Braggablús í útsetningu Bubba Morthens og í þriðja sæti varð Hvergerðingurinn Hallgrímur Daðason með frumsamið lag, Eins og þá. Verðlaun fyrir skemmtilegasta atriðið fengu þær Aðalheiður Sif Guðjónsdóttir, Metta Malín Bridde og Sigurbjörg Marta Baldursdóttir með lagið Sveitapiltsins draumur sem Hljómar gerðu góð skil fyrir einhverju síðan.
Söngkeppnin er einn stærsti viðburður í dagatali skólaársins og ávallt mikil eftirvænting eftir þessari tónlistarveislu sem setur sinn svip á skólahaldið. Alls tóku tólf atriði þátt í keppninni og hátt í 500 áhorfendur fylltu bekkina en hefð er fyrir því að þennan dag komi 10. bekkingar af Suðurlandi í heimsókn í skólann og kynni sér starfsemi hans.
Keppnin í ML var haldin fyrst haustið 1989 í ML og voru það þeir Sigmundur Sigurgeirsson og Hjörtur Freyr Vigfússon sem áttu mestan heiður af því að koma henni á laggirnar á sínum tíma. Sigmundur var heiðursgestur keppninnar í ár og hafði hann orð á því hversu glæsileg keppnin hefði verið og naut þess mjög að vera viðstaddur Blítt og létt 2025.

