Síðasti séns – leiðsögn og sýningarstjóraspjall

Ljósmynd/Aðsend

Á síðasta sýningardegi sýningarinnar Heimurinn sem brot úr heild, í Listasafni Árnesinga í Hveragerði sunnudaginn 15. desember kl. 15, mun Jóhannes Dagsson sýningarstjóri ganga með gestum um sýninguna.

Jóhannes mun ræða við þá um hugmyndirnar sem liggja að baki vali hans á verkunum sem sjá má eftir listamennina Önnu Jóa og Gústav Geir Bollason.

Bæði Anna Jóa og Gústav Geir luku framhaldsnámi í myndlist frá Frakklandi, bæði vinna þau með brot af ólíkum toga og bæði eru þekkt fyrir að koma verkum annarra listamanna á framfæri. Anna stofnaði og rak um tíma Gallerí Skugga í Reykjavík en hefur einnig verið listgagnrýnandi og stundakennari í listfræði og Gústav Geir er einn af stofnendum listrýmisins Verksmiðjunnar á Hjalteyri og rekur hana í dag. Á sýningunni í Listasafni Árnesinga er fókusinn hins vegar á þeirra eigin listaverk, verk sem eru afar ólík, en með því að stilla þeim saman skapast óvæntar aðstæður sem veita innsýn í áhugaverða heima til túlkunar.

Sýningarstjórinn Jóhannes er menntaður bæði í myndlist og heimspeki og starfar við myndlistardeild Listaháskóla Íslands. Útgangspunktur sýningarinnar er teikningin, en Jóhannes hefur einnig valið inn málverk, vídeóverk og skúlptúra sem tengjast þeim hugmyndum sem sýningin byggir á og hann hefur lýst sýningunni með eftirfarandi orðum: „Við fáum hér aðgengi að heimum, brotakennda leið, brotakenndan aðgang að heimum sem eiga sér uppruna í því liðna og í framtíðinni.“

Síðasti sýningardagur ársins
Sunnudagurinn 15. desember er síðasti sýningardagur ársins í safninu og þar með lýkur líka sýningunni Heimurinn sem brot úr heild. Aðgangur að safninu er ókeypis og það eru allir velkomnir.

Fyrri greinNýr vefur Árborgar í loftið
Næsta greinTvennir jólatónleikar á Hendur í höfn um helgina