Síðasti sýningardagur – Karlotta ræðir við gesti

Á síðasta sýningardegi sýningarinnar MÖRK í Listasafni Árnesinga í Hveragerði verður gestum gefið tækifæri til þess að kynnast verkum og verkferlum listamannsins Karlottu Blöndal sem er ein af fjórum höfundum verkanna á sýningunni.

Boðið verður upp á listamannaspjall með Karlottu, sunnudaginn 21. febrúar kl. 15.

Fyrir Karlottu er pappír lifandi efni sem bregst við gjörðum hennar og hefur áhrif á bæði inntak og útlit hins fullkláraða verks. Gagnvart áhorfandanum birtast verkin mikilfengleg með útpældum litaheildum mynstraða fellinga. Listamaðurinn mun ræða við gesti um hugmyndir sínar að verkunum, vinnslu þeirra, staðsetningu þeirra í rýminu og samspil við önnur verk, en upplifun hvers og eins af sýningunni er þó ávallt persónuleg.

MÖRK, sem er heiti sýningarinnar, hefur jafn margar og ólíkar tilvísanir sem fjöldi verka. Ein vísar til skógarins sem leggur grunn að pappírsgerð, efni allra verkanna á sýningunni. Mörk stendur líka fyrir línu, þolmörk eða takmörk, sem bæði skapendur og áhorfendur ýta á eða yfirstíga á margvíslegan hátt. Verkin sem flest eru þrívíð skapa áhugavert samtal og samhengi sín á milli og koma á óvart. Höfundar þeirra auk Karlottu eru Eygló Harðardóttir, Jóna Hlíf Halldórsdóttir og Ólöf Helga Helgadóttir.

Karlotta nam myndlist fyrst hér heima en sótti síðan framhaldsmenntun bæði í Hollandi og Svíþjóð. Hún hefur sýnt víða bæði hérlendis sem erlendis og auk þess komið að rekstri sýningarrýma, staðið að útgáfu listtímarita og fengist við listkennslu.

Um leið og sýningunni MÖRK lýkur tekur sýningin Listamannabærinn Hveragerði líka enda. Safnið er opið fimmtudaga til sunnudaga kl. 12 – 18 nema meðan verið er að skipta út sýningum. Aðgangur er ókeypis, líka á listamannsspjallið.

Fyrri greinHlaupanámskeið og hlaupaæfingar fyrir byrjendur
Næsta greinNæst lægsta tilboðinu tekið