Síðasta tónleikahelgin í Skálholti

Síðasta tónleikahelgi Sumartónleika í Skálholti er um verslunarmannahelgina og verða fyrstu tónleikarnir haldnir föstudagskvöldið 3. ágúst klukkan 20:00.

Þar koma fram Sólveig Thoroddsen hörpuleikari og lútuleikarinn Sergio Coto Blanco, sem er fæddur í Kosta Ríka. Sólveig og Sergio starfa bæði í Þýskalandi og eiga að baki langt nám í sögulega upplýstum tónlistarflutningi. Efnisskrá þeirra spannar þrjár aldir, elstu verkin frá 14.öld og höfundarnir ítalskir, enskir og franskir, en einnig flytja hljóðfæraleikararnir eigin útsetningar á íslenskum þjóðlögum. Þessir tónleikar verða endurteknir laugardaginn 4. ágúst klukkan 14.

Konur í öndvegi
Laugardaginn 4. ágúst klukkan 16 leikur hinn margverðlaunaði kammerhópur Nordic Affect efnisskrána „Hún“. Eru þeir tónleikar tileinkaðir tónlist kvenna og verður leikin barokktónlist á upprunahljóðfæri. Þessi efnisskrá verður endurtekin sunnudaginn 5. ágúst klukkan 14. Sama dag klukkan 16 flytur Nordic Affect efnisskrána „Fjórar fabjúlöss“ með nýjum verkum eftir staðartónskáld Sumartónleikanna þær Báru Gísladóttur og Bergrúnu Snæbjörnsdóttur, auk verka eftir víetnamska tónskáldið Luong Hue Trinh og Veronique Vöku frá Kanada.

Starf Nordic Affect einkennist af nýstárlegri nálgun og frumleika í verkefnavali en hópurinn hefur frá upphafi flutt allt frá danstónlist 17. aldar til raftónlistar okkar tíma. Nordic Affect hefur haldið tónleika víða um lönd og má einnig finna leik hópsins á hljómdiskum. Í október er væntanlegur hljómdiskurinn H e (a) r með hópnum í útgáfu Sono Luminus. Nordic Affect er skipað Höllu Steinunni Stefánsdóttur og Antina Hugosson fiðluleikurum, Steinunni Arnbjörgu Stefánsdóttur sellóleikara og Guðrúnu Óskarsdóttur semballeikara.

Ókeypis er á Sumartónleika í Skálholti. Nánari upplýsingar er að finna á heimasíðu tónleikanna.

Fyrri greinFlúðir um versló hefst á morgun
Næsta greinUnnur Birna í Listasafni Íslands