Sex metra langur humar við hafið

(F.v.) Ólafur Hannesson, Kjartan B. Sigurðsson og kona hans Unnur Erla Malmquist, Þórhildur Ólafsdóttir og Hannes Sigurðsson á Hrauni. Ljósmynd/Aðsend

Í gærmorgun var afhjúpað listaverk við veitingastaðinn Hafið bláa á Óseyrartanga í Ölfusi. Um er að ræða sex metra langan og mannhæðarháan humar.

Höfundur verksins er Kjartan B. Sigurðsson, sjó- og listamaður í Þorlákshöfn og hefur hann unnið að verkinu undanfarna fjóra mánuði, en hugmyndavinna hófst árið 2014.

Það eru þau Hannes Sigurðsson og Þórhildur Ólafsdóttir á Hrauni í Ölfusi sem hafa veg og vanda að uppsetningu verksins en þau hafa átt sér þann draum að setja upp útilistaverk á staðnum allt frá því þau opnuðu veitingastaðinn Hafið bláa árið 2003.

Verkið nefnist „Humar við hafið“ og að sögn Ólafs Hannessonar á Hrauni er verkinu ekki síst ætlað að heiðra sjómenn þó það sé von fjölskyldunnar á Hrauni að almenningur eigi eftir að njóta verksins.

Humarinn er engin smásmíði, sex metra langur og mannhæðarhár. Ljósmynd/Aðsend
Fyrri greinBannað að borða á belgnum
Næsta grein„Áttum að gera betur í sókninni“