Set stundum Ajax í tusku á Þorláksmessu til að fá jólailminn í húsið

Glódís Margrét Guðmundsdóttir. Ljósmynd/Úr einkasafni

Glódís Margrét Guðmundsdóttir frá Hellu svaraði nokkrum jólaspurningum fyrir sunnlenska.is.

Hvort ertu meiri skröggur eða jólaálfur? Ég er algjör jólaálfur og það eykst bara með árunum. Ég verð alltaf meyrari og þakklátari fyrir jólin með hverri jólahátíð sem líður. Ég er skröggur þegar kemur að foreldrum sem gefa börnunum sínum alltof dýrar og veglegar gjafir í skóinn.

Uppáhalds jólasveinn? Kertasníkir, hann er bara svo mikið krútt og kom náttúrulega alltaf með stærstu gjöfina innpakkaða á aðfangadag.

Uppáhalds jólalag? Mér finnst Sjá himins opnast hlið og Þá nýfæddur Jesús alltaf ómissandi á aðfangadag og það er eitt af uppáhalds til að koma mér í hátíðarskap. Annars eru þau eru svo mörg og fer eftir skapinu hvað er í uppáhaldi hverju sinni. Oftast þessa dagana eru það kósý, róleg jólalög til að hægja aðeins á púlsinum og róa hjartað þar sem það er stundum frekar mikið að gera svona síðustu daga fyrir jól. Var til dæmis að uppgötva plötuna Húmar að kveldi með Ernu Hrönn og Pálma Sigurhjartar, yndisleg plata til að róa hjartað með einstaklega fallegum útsetningum. Svo var ég að uppgötva lagið Æskujól með Sölku Sól eftir Tómas Jónsson sem er þvílík dásemd! En sem barn var uppáhaldið alltaf Ef ég nenni með Helga Björns og það hefur alltaf sérstök jólanostalgíuáhrif á mig að heyra það.

Glódís jólastelpa. Ljósmynd/Úr einkasafni

Uppáhalds jólamynd? Mér finnst fátt jólalegra en að horfa á Lord of the Rings og Hobbita-myndirnar. Þær komu alltaf út kringum jólin og voru sýndar í sjónvarpinu yfir hátíðarnar svo ég tengi þær alltaf við jólin.

Uppáhalds jólaminning? Þegar Bergrún systir mín fæddist þann 19. des 2001. Kvöldið sem hún fæddist var ég 11 ára, á jólatónleikum Tónlistarskóla Rangæinga á meðan mamma var á spítalanum. Ég beið eftir fréttum og hlustaði á tónlistina og það var bara einhver áþreifanlegur jólaheilagleiki yfir þessu kvöldi sem ég gleymi aldrei.

Uppáhalds jólaskraut? Litlar styttur sem voru til á æskuheimilinu mínu af helgileiknum. Ég hélt alltaf mikið uppá þetta skraut sem barn og ómissandi partur af jólunum var að sviðsetja fæðingu Jesú með þessum litlu fallegu styttum.

Minnistæðasta jólagjöfin? Það er alltaf handverkið frá krökkunum hver jól, sérstaklega finnst mér gaman að fá eitthvað sem þau hafa smíðað eða tálgað.

Hvað finnst þér ómissandi að gera fyrir hver jól? Mér finnst ómissandi að gera eitthvað nýtt og ekki vera of vanaföst í hefðunum. Skúringar á Þorláksmessu eru samt alltaf jafn ómissandi. Mamma skúraði alltaf með Ajax klassíska en nú reyni ég alltaf að nota bara umhverfisvænar og eiturefnalausar vörur í öll þrif. Þrátt fyrir það hef ég stundum freistast til að setja Ajax í tusku á Þorláksmessu til að fá lyktina í húsið sem er í mínum nösum mjög jólaleg lykt, baneitruð náttúrulega, en jólin koma nú bara einu sinni á ári.

Hvað er í jólamatinn? Við höfum alltaf léttreyktan lambahrygg en það er hefð sem við tókum upp frá manninum mínum. Það var alltaf hamborgarhryggur hjá mér þar til ég kynntist honum, léttreykta lambið er besti matur sem ég fæ.

Ef þú ættir eina jólaósk? Friður á jörð.

Fyrri greinJólastemning í Vatni og heilsu
Næsta greinHéraðsmet féll á vetrarsólstöðumóti