Sembaltónleikar og skandinavísk þjóðkvæði

Í kvöld kl. 20 leikur Guðrún Óskarsdóttir einleiksverk fyrir sembal á Sumartónleikum í Skálholtkirkju.

Tónleikar Guðrúnar verða svo endurteknir á laugardaginn 6. júlí kl. 15. Á sunnudaginn, 7. júlí, heldur skandinavíska tríóið Ulv tónleika kl. 15 og flytur þjóðlagatónlist.

Á tónleikum Guðrúnar flytur hún svítu eftir Couperin ásamt verkum eftir Kolbein Bjarnason og Leif Þórarinsson. Á undan tónleikunum á laugardag, kl. 14, heldur Kolbeinn Bjarnason fyrirlestur um efnisskrá dagsins.
Ulv og þjóðlagatónlist
Skandinavíska tríóið Ulv skipa þær Agnethe Christensen, söngkona, Lena Susanne Norin söngkona og Elizabeth Gaver sem leikur á miðaldafiðlu. Þær flytja þjóðkvæði frá miðöldum, sálma og gamla hljóðfæratónlist sem þær hafa safnað saman frá Svíþjóð, Eistlandi og Úkraínu. Sænsku miðaldakvæðin eiga rætur sínar að rekja til norrænnar goðafræði og evrópskrar þjóðkvæðahefðar. Margir textanna hafa verið varðveittir án laglína og hefur hópurinn mótað nýjar út frá gömlum mótífum og þjóðlögum.
Sumartónleikar í Skálholtskirkju hafa verið starfandi síðan 1975 og staðið fyrir tónleikahaldi í Skálholtsdómkirkju í sex vikur á hverju sumri. Hátíðin er sú elsta og stærsta sinnar tegundar á landinu. Hvert sumar sækja milli 3.000 og 4.000 gestir hátíðina, en þeim fer fjölgandi með hverju ári. Hátíðin hefur skapað sér sess sem mikilvæg tónlistarhátíð á heimsvísu, sérstaklega hvað varðar flutning á tónlist 17. og 18. aldar, en einnig er lagt áherslu á flutning nýrra verka eftir íslensk tónskáld.

Fyrri greinMalbikunarframkvæmdir við Selfoss
Næsta greinTryggvaskáli opnar í kvöld