Seinni forkeppni Uppsveitastjörnunnar í dag

Átta atriði eru skráð til leiks í seinni forkeppni Uppsveitastjörnunnar, hæfileikakeppni Upplits, sem haldin verður í félagsheimilinu á Flúðum í dag kl. 15-17.

Keppendurnir eru ellefu talsins, á aldrinum 11-19 ára.

Dómnefnd velur tvö til fjögur atriði sem halda áfram og keppa til úrslita í mars nk., ásamt þeim sem komust áfram í úrslit í fyrri forkeppninni sem fram fór á Borg í Grímsnesi í nóvember.

Frumleiki, skemmtun og sköpunargleði vega þungt þegar atriði eru valin í úrslit. Veitt eru verðlaun og allir þátttakendur fá auk þess viðurkenningu. Úrslitakeppnin verður svo í Aratungu í mars.

Uppsveitafólk og aðrir gestir eru hvattir til að mæta, fylgjast með spennandi keppni og hvetja sínar stjörnur áfram. Óhætt er að segja að keppendurnir eru allir sem einn hæfileikaríkir, veitingarnar ljúffengar og stemmningin ljómandi. Aðgangseyrir er aðeins 500 krónur en frítt inn fyrir 12 ára og yngri. Veitingar verða til sölu við vægu verði.

Í dómnefndinni að þessu sinni eru þau Magnea Gunnarsdóttir, tónlistarkennari og söngkona í Þrándarholti, Inga Birna Ingólfsdóttir, söngkona og hestakona frá Hlemmiskeiði, og Sigmundur Sigurgeirsson, ritstjóri og tónlistarmaður frá Grund.

Menningarráð Suðurlands styður Uppsveitastjörnuna – og einnig sveitarfélögin í uppsveitunum, sem leggja til félagsheimilin fyrir keppnirnar.

Ekki missa af þessu – allir velkomnir!

Fyrri greinLímtré fjölgar starfsmönnum
Næsta greinAuðvelt hjá Hamri gegn Augnabliki