„Séð og jarmað” hleypt af stokkunum

Öldungaráðið á Stokkseyri, í umboði Hrútavina, hefur ráðast í blaðaútgáfu og var fyrsta eintakinu fagnað í morgun.

Um er að ræða mánaðarrit sem fengið hefur nafnið „Séð og jarmað” Ný – Myndrit Hrútavinafélagsins Örvars á Suðurlandi. Í ritinu verða gamlar og nýjar myndasyrpur af lífi og leikjum Hrútavina á líðandi stund og frá fyrri tíð í starfi Hrútavina um víðan völl.

Ritstjórar eru; Björn Ingi Bjarnason á Eyrarbakka og Kjartan Már Hjálmarsson á Selfossi. Í ritnefnd eru; Stokkseyringarnir Bjarkar Snorrason, Gísli Rúnar Guðmundsson, Grétar Zóphoníasson, Jón Jónsson og Þórður Guðmundsson. Ljósmyndarar að þessu sinni eru; Björn Ingi Barnason, Guðmundur J. Sigurðsson, Kjartan Már Hjálmarsson og Tinna Jónsdóttir.

Fyrsta tölublaðið kom út í morgun, föstudaginn 21. janúar, á fyrsta degi Þorra – bóndadeginum. Myndritið er 12 síður að þessu sinni í stóru broti og þar má sjá Stokkseyringa og fleiri Hrútavini í hundraðavís.

Útgáfuteiti var í Shell-Skálanum á Stokkseyri þar sem útgáfan var kynnt en upplagið er eitt eintak sem verður til lesturs og skoðunar í Shell-Skálanum á Stokkseyri alla daga.