Saumastofan á svið í Árnesi

Leikdeild Ungmennafélags Gnúpverja frumsýnir á laugardaginn leikritið Saumastofuna eftir Kjartan Ragnarsson.

Verkið var fyrst sett upp af Leikfélagi Reykjavíkur við gífurlegar vinsældir og nú er það komið í Gnúpverjahreppinn. Saumastofan er gamanleikrit með tónlist og söng ásamt dramatísku ívafi. Leikstjóri verksins er Svandís Dóra Einarsdóttir og sýnt er í félagsheimilinu Árnesi.

Saumastofan var skrifuð í tilefni af kvennaárinu 1975 sem náði hápunkti með kvennafrídeginum sama ár. Leikritið sló í gegn og var sýnt yfir 200 sinnum á þremur árum. Saumastofan var ádeila inn í þjóðfélagið á sínum tíma, þar sem staða konunnar innan feðraveldisins var miðpunktur ádeilunnar.

Af hverju eru konur með lægri laun en karlar? Af hverju hafa karlmennirnir völdin þegar konan er sú sem í raun og veru heldur öllu saman? Kjartan beinir athyglinni að mikilvægum spurningum sem eiga fullt erindi enn þann dag í dag. Hvað hefur raunverulega breyst?

Fyrri greinSverrir puttabrotinn
Næsta greinGufuveitan í Hveragerði biluð