SASS styrkir Sinfóníuhljómsveit Suðurlands

Guðmundur Óli Gunnarsson hljómsveitarstjóri og Margrét Blöndal framkvæmdarstjóri Sinfóníuhljómsveitar Suðurlands skrifa undir samninginn. Ljósmynd/SASS

Síðastliðinn þriðjudag undirrituðu Samtök sunnlenskra sveitarfélaga og Sinfóníuhljómsveit Suðurlands samning um áhersluverkefni. SASS mun styrkja hljómsveitina um tvær milljónir króna á þessu ári til að halda skólatónleika og kynna klassíska tónlist fyrir nemendum í grunnskólum á Suðurlandi.

Með stuðningi sínum vill SASS auðga menningarlíf á Suðurlandi og skjóta frekari rótum undir starfsumhverfi klassískra tónlistarmanna á Suðurlandi.

Sinfóníuhljómsveit Suðurlands var stofnuð haustið 2020, hljómsveitarstjóri sveitarinnar er Guðmundur Óli Gunnarsson og Margrét Blöndal er framkvæmdarstjóri. Í frétt frá SASS segir að þetta sé mikilvægt verkefni fyrir tónlistarskólana á svæðinu, og mun tilkoma hljómsveitarinnar koma til með að breyta menningarlífi á Suðurlandi.

Sumarið 2021 tók Sinfóníuhljómsveit Suðurlands þátt í Oddahátíð, auk þess sem hún hélt tólf skólatónleika, sem voru meðal annars fjármagnaðir af SASS.

Fyrri grein1.501 í einangrun og sóttkví á Suðurlandi
Næsta grein40% starfsmanna grunnskólans fjarverandi