Rangæingurinn og jazz tónlistarkonan Sara Mjöll Magnúsdóttir heldur tónleika með kvartett sínum á Midgard á Hvolsvelli á morgun, laugardaginn 15. nóvember.
„Ég gaf út mína fyrstu plötu í ágúst, A Place to Bloom, og var með stóra útgáfutónleika á Jazzhátíð Reykjavíkur í tilefni þess, en mig langaði að halda tónleika með sama efni nær heimaslóðum, fyrir mitt heimafólk, og er að gera það núna á laugardaginn! Þetta er jazz tónlist, öll eftir mig,“ segir Sara í samtali við sunnlenska.is.
Á tónleikunum munu þau leika lög af plötunni en tónlist Söru er jazz tónlist með blús áhrifum og nóg af grúvi og sál.

Landslið hljóðfæraleikara skipar kvartett Söru, hún spilar sjálf á Hammondorgel, en auk hennar skipa hljómsveitina þeir Jóel Pálsson á saxófón, Einar Scheving á trommur og Andrés Thor Gunnlaugsson á gítar.
Sara Magnúsdóttir hefur verið áberandi í jazztónlistarsenunni á Íslandi seinstu ár sem píanó og orgelleikari sem og tónskáld, og komið fram mjög víða. Hún hefur verið búsett í New York undanfarin ár þar sem hún hefur stundað nám í jazztónlist, en kemur reglulega til Íslands að spila tónleika.
Tónleikarnir hefjast kl. 21:00 og hægt er að hringja í Midgard eða senda tölvupóst á sleep@midgard.is til að tryggja sér miða. Það er um að gera að mæta snemma og bóka borð í ljúffengan mat eða aðrar veigar en það er gleðistund á Midgard á milli 16 og 18:30.

