Samræður á sunnudegi

Sunnudaginn 14. júní kl. 15 ræðir Sirra Sigrún við gesti Listasafns Árnesinga í Hveragerði og segir frá verkum sínum á sýningunni GEYMAR.

Gestum er boðið að ganga inn í myndheim Sirru Sigrúnar Sigurðardóttur og sjá hvernig hún veltir fyrir sér ólíkum viðfangsefnum sem snerta mannlega tilvist og þróar verk sín út frá því. Hún vinnur m.a. markvisst með tölfræðilegar upplýsingar, myndrænar niðurstöður kenninga eða vísindarannsókna, ummyndar þær og aðlagar lögmálum myndlistar s.s. lit, formi, rúmi og tíma. Í innsetningum sínum vinnur hún með sjónhverfingar sem hrífa áhorfandann á vit upplifunar og víða má sjá tilvísun í listasöguna, ýmist persónulega eða í víðara samhengi, blandaða kímni og alvöru. Sirra er einnig með samfélagslegar skírskotanir og á sýningunni er m.a. eitt myndlistarverk sem sprottið er úr nærsamfélaginu. Sýningin GEYMAR var á dagskrá Listahátíðar í Reykjavík 2015.

Sirra Sigrún setti einnig saman sýninguna Flassbakk þar sem hún hefur valið verk úr safneign Listasafns Árnesinga, sem kalla fram endurminningar frá Selfossi þar sem hún ólst upp og safnið var fyrst staðsett ásamt Byggðasafni Árnesinga og náttúruminjadeild þess.

Sirra hefur tekið þátt í fjölda sýninga bæði hér heima og erlendis, meðal annars í Listasafni Reykjavíkur og Tate Modern í London. Hún er einn stofnenda og eigenda sýningarstaðarins Kling & Bang í Reykjavík þar sem hún hefur skipulagt margvíslegar sýningar og listviðburði með þátttöku innlendra og erlendra listamanna. Í desember 2012 var Sirra á meðal 24 alþjóðlegra listamanna, sem tímaritið Modern Painters útnefndi sérstaklega, sem listamenn er vert væri að fylgjast með á komandi árum.

Sýningarnar GEYMAR og FLASSBAKK munu standa til og með 12. júlí.

Listasafn Árnesinga er opið alla daga kl. 12 – 18 og aðgangur er ókeypis.

Fyrri greinHvergerðingar sópuðu til sín verðlaunum
Næsta greinHarmonikkumessa í Árbæjarkirkju