Samningur um ástina og dauðann – er hægt að semja við Sunnlendinga?

Sjálfstæði listhópurinn Smyrsl hefur undanfarna mánuði ferðast með sýninguna „Samningurinn“ og næsti viðkomustaður er Selfoss, en sýningin verður sett upp í leikhúsinu við Sigtún fimmtudaginn 24. maí kl. 20:00.

Það eru nemendur úr Listaháskóla Íslands sem standa að uppfærslunni en Samningurinn er frumraun höfundar, Helga Gríms Hermannssonar, sem leikritshöfundar.

Sýningin fjallar um tvær ólíkar persónur með mismunandi áform og markmið í lífinu og hagsmunaárekstra þeirra á milli, átök og áherslur í lífinu. Sviðsetning, leikstjórn, tónlist og öll umgjörð leikverksins er eftir hópinn.

Verkið var frumsýnt á Nýja Sviðinu í Borgarleikhúsinu á hátíð Ungleiks, nóvember 2017. Síðan þá hefur það verið þó nokkrum sinnum sýnt í húsnæði LHÍ en ásamt því tók hópurinn þátt í listahátíðinni FACT Festival sem haldin er í Búdapest. Fékk verkið góðar viðtökur og kom það jafnvel fram í Ungverska ríkissjónvarpinu.

Leikarar í verkinu eru Jónas Alfreð Birkisson, Ragnar Pétur Jóhannsson og Selfyssingurinn Rakel Ýr Stefánsdóttir. Jökull Smári Jakobsson leikstýrði.

Aðeins verður um þessa einu sýningu á Selfossi að ræða og fer miðasalan fram á jokull95@gmail.com og við innganginn. Hópurinn hvetur alla Sunnlendinga til þess að mæta og semja.

Fyrri greinHvers vegna ætti unga fólkið í Árborg að setja X við S?
Næsta greinSelfyssingar sigursælir á sundmóti