Samkeppni um nýtt kórverk

sunnlenska.is/Guðmundur Karl

Ingibjörg Erlingsdóttir, tónlistarkennari og tónskáld á Hvolsvelli, stendur fyrir samkeppni um nýtt kórlag fyrir blandaðan kór, sem verður frumflutt á Degi íslenskrar tungu, þann 16. nóvember næstkomandi.

Aðspurð segir Ingibjörg í samtali við sunnlenska.is að hennar áhugi á að fá ný kórverk hafi rekið hana til þess að halda keppnina og um leið er hún hvatning fyrir fólk til að semja nýja tónlist. Ingibjörg fékk styrk frá SASS til þess að halda keppnina.

Skilafrestur til 1. október
Þátttakendur í samkeppninni skulu skila kórlögunum á skrifstofu Rangárþings eystra co/Árný Lára fyrir klukkan 16:00 þann 1. október næstkomandi í umslagi merkt „Kórlag samkeppni“. Nafn höfunda má ekki koma fram og skal merkt með dulnefni í lokuðu umslagi merktu með dulnefni og skal það innihalda nafn/nöfn höfunda og verks. Einnig er hægt að senda pdf í netpósti merkt með dulnefni á arnylara@hvolsvollur.is og hún sér um að setja í umslag og merkja það með dulnefni.

Lagið skal vera frumsamið og má ekki hafa verið flutt opinberlega áður. Það má ekki vera lengra en um það bil fimm mínútur og skal vera útsett fyrir blandaðan kór og hæft til flutnings án undirleiks.

Dómnefndina skipa Gunnar Gunnarsson, organisti, Ingveldur Ýr Jónsdóttir, formaður FÍK, söngkona og kórstjóri og Magnea Gunnarsdóttir, söngkona og tónlistarkennari.

Nánari upplýsingar um keppnina má fá hjá Ingibjörgu í síma 845-0015 eða ierlingsdottir@gmail.com.

Fyrri greinBrenna hlaut gullskóinn
Næsta grein3.453 á kjörskrá