Hausinn stoppar undir kúnni

Harpa Rún Kristjánsdóttir. Ljósmynd/Aðsend

Í vikunni kom út ljóðabókin Vandamál vina minna eftir Hörpu Rún Kristjánsdóttur frá Hólum við Heklurætur.

„Það er fyrst og fremst dólgur í bókinni. Síðasta ljóðabók var svona – áferðarfalleg og aðgengileg. Hún þurfti að vera það. Hér er allt annar tónn, meiri gróteska og frelsi – miklu meiri ég. Uppleggið var að hún væri beitt, fyndin, raunsæ og sár. Vonandi er hún eitthvað af því,“ segir Harpa Rún í samtali við sunnlenska.is

Þetta er fjórða bók Hörpu Rúnar og önnur ljóðabókin hennar en áður hafði hún sent frá sér ljóðabókina Eddu. Fyrir þá bók hlaut hún bókmenntaverðlaun Tómasar Guðmundssonar árið 2019.

Í sumar hefur Harpa Rún svo verið að skrifa jólasýningu Þjóðleikhússins – Edduna – ásamt þeim Jóni Magnúsi Arnarsyni og Þorleifi Erni Arnarsyni. Fyrsti samlestur er svo í dag og er hún skiljanlega mjög spennt. 

Þegar Harpa Rún er ekki að sinna ritstörfum sinnir hún bústörfum í sveitinni sinni en hún er með þrjú hundruð kindur og tvær kýr sem eru handmjólkaðar kvölds og morgna. Þegar blaðamaður sunnlenska.is hafði samband við Hörpu Rún var hún að brytja kjöt. Sem sagt nóg að gera hjá rithöfundinum og bóndakonunni Hörpu Rún.

Ljósmynd/Aðsend

Ástarljóð um gamla sjénsa
Innblásturinn að ljóðabókinni Vandamál vina minna fékk Harpa Rún víða að. „Ég lagði snemma upp með þemað og hef síðan verið að tína þar inn ljóð sem mér finnst passa. Þarna eru ástarljóð um gamla sénsa (mína og annarra), ljóð um fólk sem stendur mér nærri og fólk sem stendur því nærri. Það eru líka ljóð um skepnur sem standa mér nær en margt fólk, náttúru og náttúruvá.“ 

„Sum ljóðin komu til mín eins og leiftur í kjölfar ákveðinna atburða eða ákveðinnar reynslu. Önnur eru sögur sem mig langaði til að segja, gjarnan sögur sem ég hef heyrt og frá öðrum. Síðan eru þjóðsagnaminni sem ég held að smjúgi bara til mín í gegnum náttúruna.“

Eitthvað sem allir tengja við
Aðspurð hvort vandamál vina Hörpu Rúnar séu íþyngjandi fyrir hana segir hún svo stundum vera. „Ég á það til að taka tilfinningar annarra ansi mikið inná mig og á oft erfitt með að hrista af mér orku – bæði góða og slæma. En ég held að vandamál séu líka eitthvað sem við tengjum við. Mörg vandamálin í bókinni eru í raun mín eigin, í felubúningi, en margt er líka tekið frá vinum mínum vegna þess að ég tengdi við þau, án þess að standa í sömu sporum. Og það held ég kannski að sé kjarninn, að fá fólk til að finna til samsömunar.“

Vandamál vina minna var lengi í smíðum og segir Harpa Rún að þetta hafi bæði verið langt og erfitt ferli. „Ég var byrjuð á þessari á undan Eddu og þurfti í raun á sínum tíma að velja hvort ég vildi klára hana eða Kynslóð. Síðan varð ég ólétt og skapaði barn en tapaði um leið sköpunarkraftinum og var ótrúlega lengi að finna hann aftur. Ég bjóst aldrei við að skrifa ljóðabók á hnefanum en það varð eiginlega raunin með þessa. Handritið sveiflaðist frá rúmlega hundrað ljóðum og niður í þessi um fimmtíu sem eftir standa. Þetta var gríðarlega erfitt ferli – og ég hefði ekki getað það án vina minna.“

Samdi flest ljóðin í fjósinu
Blaðamaður sunnlenska.is veit að Harpa Rún hefur sterka tengingu við náttúruna og því er ekki úr vegi að spyrja hvar andinn hafi helst komið yfir hana. 

„Það er kannski að verða klisja hjá mér en megnið af henni er sennilega samið í fjósinu. Ég næ svo sjaldan að stoppa hausinn og skrifa nú orðið nema undir kúnni kvölds og morgna. Þar þýddi ég líka megnið af Rómeó og Júlíu á sínum tíma svo þetta er góður staður.“

„Annars er ljóðlist bara ljósmyndun og það vantar aldrei hugmyndirnar, en ég næ yfirleitt ekki að skapa neitt úr þeim fyrr en ég er komin út í náttúruna. Það er til dæmis ljóð í bókinni sem heitir Til kinda og er samið þegar ég var að ganga við féð á sauðburði. Svona gegningastúss gefur mér oft rými til að vinna úr og móta hugmyndir sem ég hef rétt gripið á lofti áður. Kyrrðin í námunda við náttúruna og skepnurnar er mér ómissandi til að geta skapað.“

Ljósmynd/Aðsend

Mikilvægt að yfirstíga óttann
Það er margt sem Hörpu Rún finnst heillandi við ljóðaformið. „Ljóðið er svo gjöfult og vandasamt form. Ég veit að margir óttast ljóðaformið, fólk dæsir dálítið þegar ég segist vera með ljóðabók því það segist ekki skilja ljóð. Ég var sjálf þarna í mörg ár. En málið er að við skiljum öll ljóð, við erum bara stundum svolítið hrædd við það. Af því að við erum hrædd við berskjöldun, hrædd við skapandi hugsun og hrædd við að vera skrýtin. Þegar við náum að yfirstíga þann ótta þá getum við nálgast lífið frá svo miklu fleiri hliðum – til dæmis ljóðlistinni.“

„Ljóðaformið er svo knappt og það er hægt að leggja svo mikla merkingu í eitt orð. Það er líka hægt að yrkja ljóð um hluti sem þú gætir aldrei skrifað um á annan hátt. Og ef að vel tekst til þá nærðu að hnýta einhvern streng, kannski leysa hnút í einhverju brjósti. Og þá er markmiðinu náð. Einn glaður lesandi er nóg fyrir mig.“

Hægt er að nálgast Vandamál vina minna í öllum betri bókaverslunum og á heimasíðu Bjarts. „Og svo hjá mér. Ég er oft heima og það er líka velkomið að hóa í mig í upplestra ef fólk vill. Föstudaginn 3. nóvember kl. 17 er ferfalt útgáfuhóf og Ljóðakvöld Bjarts á Loft hostel í Reykjavík. Þar mun ég mæta ásamt fríðum flokki skálda og lesa upp – og vera með smá dólg.“

Fyrri grein„Ég á mjög skilningsríka eiginkonu“
Næsta greinVindheimar Hrafnhildar Ingu í Gallerí Fold