Sálir Jónanna ganga aftur í Aratungu

Laugardaginn 3. febrúar frumsýndi Leikdeild Ungmennafélags Biskupstungna í Aratungu gamanleikritið Sálir Jónanna ganga aftur eftir þær Ingibjörgu Hjartardóttur, Sigrúnu Óskarsdóttur og Unni Guttormsdóttur.

Hjalti Gunnarsson og Íris Blandon fara með aðalhlutverkin en leikarar eru tíu talsins. Leikstjórn er í höndum Gunnars Björns Guðmundssonar og er þetta í níunda skiptið sem hann leikstýrir hjá Tungnamönnum.

Verkinu var mjög vel tekið á frumsýningu um síðustu helgi og mikið hlegið en hér er um fjörugan gamanleik er að ræða.

Leikritið er harmþrungin, siðferðisleg þjóðfélagádeila. Grallaraleg leikgerð á þjóðsögunni alkunnu um kerlinguna og sálina hans Jóns hennar. Í þessari útgáfu eru fjórir Jónar, hver með sínu laginu, og makarnir sömuleiðis. Kölski og aðstoðarmaður hans reyna hvað þeir geta til að veiða sálirnar fjórar, enda svo fátt orðið í helvíti að útlit fyrir að það verði fyrr en seinna sameinað hinum staðnum. Þeir beita ýmsum brögðum og tekst að klófesta sálirnar og fylgdarfólkið, en hinum glötuðu berst aðstoð úr óvæntri átt.

Leikarar auk Hjalta og Írisar eru Ragnhildur Ýr Gunnarsdóttir, Benedikt Axelsson, Hildur María Hilmarsdóttir, Kristinn Bjarnason, Eyrún Ósk Egilsdóttir, Þórarinn Valgeirsson, Halldór Bjarnason, Runólfur Einarsson og Unnur Malín Sigurðardóttir.

Fyrri greinSkólahald fellur niður í ML á morgun
Næsta greinÁrekstur við Þjórsárbrú