Safnarar allra uppsveita sameinist!

Upplit, menningarklasi uppsveita Árnessýslu, stendur fyrir safnarasýningu í Félagsheimilinu á Flúðum laugardaginn 5. nóvember.

Sýningin verður framlag Upplits til Safnahelgar á Suðurlandi, sem að þessu sinni verður dagana 4.-6. nóvember.

Upplit biðlar nú til safnara í uppsveitunum að draga fram úr hirslum sínum gersemarnar sem þeir hafa verið að safna og koma ekki endilega alltaf fyrir margra augu. Nú er tækifærið til að dusta rykið af þessum einkasöfnum og hefja þau til vegs og virðingar með því að sýna þau öðrum.

Við erum að tala um þessi smáu jafnt sem stóru söfn sem leynast víða á heimilum; frímerki, spil, merki, uglur, kindur, húfur, penna, límmiða, glansmyndir, servíettur, eldspýtustokka, póstkort, skó eða hvaðeina sem sumir hafa gaman af að safna og aðrir hafa gaman af að skoða.

Nú þegar hafa nokkrir öflugir safnarar tilkynnt þátttöku – og enn er pláss fyrir fleiri. Meðal þeirra eru Sigríður Mikaelsdóttir sem safnar fuglum af ýmsum stærðum og gerðum, Guðrún Einarsdóttir sem sýnir uglur, hjónin Aðalheiður Helgadóttir og Skúli Sæland koma með söfn sín af agnarsmáum bollastellum og vínflöskum og Ann-Helen Odberg sýnir sardínumiðasafn sitt frá Noregi.

Þeir sem hafa áhuga á að vera með í sýningunni eru hvattir til hafa samband við sýningarstjórana Skúla Sæland (663 9010 / skulisael@gmail.com) eða Önnu Kristjönu Ásmundsdóttur (896 6430 / anna@fludaskoli.is) sem allra fyrst og tryggja sér borð.

Gert er ráð fyrir að sýningin standi frá kl. 13 til 17 laugardaginn 5. nóvember og að safnararnir verði á staðnum á meðan á henni stendur til að sýna söfnin sín og svara spurningum gesta. Í félagsheimilinu verður stillt upp borðum til að raða söfnunum á, en safnarar verða sjálfir að sjá fyrir kössum, skápum eða öðrum hirslum til að geyma safngripina í ef borðin duga ekki. Hrunamannahreppur lánar félagsheimilið endurgjaldslaust fyrir sýninguna – og er hreppsnefndinni þakkaður velviljinn.

Safnarar allra uppsveita sameinist – og sýnið sveitungunum dýrgripina ykkar, þó ekki væri nema þennan eina dag! Einnig ætti þetta að vera kærkomið tækifæri fyrir safnara að hitta aðra safnara og skiptast á upplýsingum og skoðunum um söfnin.